Hákon Guðröðarson opnaði í dag, ásamt fjölskyldu sinni, fiskbúð í gömlu Mjólkurstöðinni á Norðfirði. Foreldrar Hákonar Guðröður Hákonarson og Þóra Bjarkadóttir í Efri Miðbæ og sambýlismaður hans Hafsteinn Hafsteinsson keyptu á dögunum húsnæði gömlu Mjólkurstöðvarinnar á Norðfirði og hafa verið að standsetja það undanfarið fyrir þennan rekstur.
Í fiskbúðinni er ýmislegt fiskmeti á boðstólum, ásamt gellum og kinnum. Einnig er á boðstólum úrval af kjötvörum að mestu frá kjötvinnslu Snæfells úr kjötborði ásamt ýmsum framleiðsluvörum úr smiðju fjölskyldunnar svo sem sósum, sushi, salötum, plokkfiski, kjúklingasalati og kartöfluréttum, að ógleymdu folaldakjötinu frá Efra Miðbæ.
Fiskbúðin mun verða opin flesta daga en fastur opnunartími verður ákveðinn upp úr komandi helgi samkvæmt reynslunni sem skapast nú en opið verður alla daga helgarinnar.
Að sögn Hákonar var fullt út úr dyrum eftir að búðin opnaði í dag og viðtökurnar fóru fram úr björtustu vonum, enda ekki verið fiskbúð á Norðfirði í um 20 síðastliðin ár.