„Honum var ýtt út í óþarfa vinnu vegna þess að fjármálaráðuneytið sendi frá sér bréf sem var efnislega rangt og það vissu menn í fjármálaráðuneytinu þegar þeir skrifuðu það. Það átti bara að ganga frá þessum manni.“ Þetta segir Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður sem sakar Steingrím J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, um „valdníðslu“.
Sigurður er lögmaður manns sem hefur háð baráttu við Fjármálaeftirlitið, fjármálaráðuneytið, Landsbankann og ríkisskattstjóra út af tilteknum fjármálagerningum. Sigurður ritar pistil á vefsíðu sína um málið, en pistilinn kallar hann „Líf lagt í rúst“.
„Það er ljóst að sú skoðun hafði verið ríkjandi í fjármálaráðuneytinu um margra ára skeið, að lögin sem um ræðir væru ákveðins efnis og framkvæmd þeirra væri með tilteknum hætti. Síðan kemur þetta bréf eins og skrattinn úr sauðarleggnum þar sem er allt í einu komin ný lagatúlkun í fjármálaráðuneytinu. Sú lagatúlkun var í samræmi við skoðanir starfsmanna í Fjármálaeftirlitinu, en þeir höfðu lengi reynt að koma henni að í ráðuneytinu. Þeim hafði hins vegar alltaf verið hafnað þar til Steingrímur J. Sigfússon varð fjármálaráðherra.
Síðan gerist það að það kemur annað bréf frá þessu sama ráðuneyti þar sem haldið er við fyrri skoðun og hina einu réttu lagatúlkun. Þá var hins vegar búið að setja minn umbjóðanda í slíkan vanda að hið hálfa væri nóg. Þetta hafði þá kostað hann stórfé, bæði að berjast við skattayfirvöld, berjast við Landsbankann og reyna að berjast við Fjármálaeftirlitið. Á endanum þurfti hann að flytja viðskipti sín úr Landsbankanum yfir í annan banka, en við þann flutning hirti Landsbankinn af honum þóknun fyrir að varðveita bréfin sem hann vildi ekki hafa.
Það merkilega við þetta er að starfsmenn Landsbankans börðust hatramlega gegn þessu. Til eru löng bréf þar sem þeir benda á að bankinn geti orðið bótaskyldur fari þeir að þessu. Svo er allt í einu búið að skipta um starfsmenn og þá er kominn nýr tónn í starfsmenn bankans, sem þorðu ekki að bera þessa ákvörðun FME undir dómstóla. Það vildu þeir ekki og sögðu að þeir ættu allt sitt undir því að fara eftir fyrirmælum FME. Þeir sýndu mikinn gunguhátt, enda eru þeir handvaldir af FME inn í bankana í gegnum hæfisnefndir. Þeir þora ekki að fara gegn FME,“ sagði Sigurður í samtali við mbl.is.
Sigurður spyr í lok pistilsins hvort þetta sé eina dæmið um „valdníðslu handhafa opinbers valds“ til að ná fram vilja sínum í samstarfi við Fjármálaeftirlitið.
„Ég er sannfærður um að dæmin eru fleiri. Ég hef sjálfur upplifað það frá hruni, að stjórnmálamenn hafa verið afskaplega ánægðir með það að farið sé fram með offorsi gegn ákveðnum mönnum. Það hafa bara ekki allir bréf í höndunum eins og ég,“ sagði Sigurður.
Sigurður sagði að skjólstæðingur sinn hefði á endanum unnið sigur í þessu máli, en það hefði reynst honum talsvert kostnaðarsamt að ná fram rétti sínum.
Sigurður vildi aðspurður ekki upplýsa hvaða mann væri um að ræða.
Ekki hefur náðst í Steingrím J. Sigfússon í dag.