Samskip lönduðu í Rotterdam

„Þetta er alrangt,“ segir Anna Guðný Aradóttir, markaðsstjóri hjá Samskipum, um frétt mbl.is þess efnis að skip Samskipa hafi verið stöðvað af Greenpeace. „Fyrir það fyrsta þá sigla Samskip ekki til Hamborgar. Auk þess komu Greenpeace hvergi nærri okkar skipi. Við lönduðum gámunum í höfninni í Rotterdam og fengum lögreglufylgd frá borði og var gert að hætta þessum hvalkjötsflutningum. Ekkert skip Samskipa hefur verið stöðvað. Hins vegar var mikill viðbúnaður við höfnina þegar við komum.“

Hún segir hollensk yfirvöld setja mikinn þrýsting á flutningsaðila að landa ekki löglega veiddum sjávarafurðum, á borð við hvalkjöt, í hollenskum höfnum og hafa nú sett bann á flutninga á hvalkjöti um höfnina í Rotterdam. „Hollenskum yfirvöldum er full alvara með þessu. Við erum hins vegar í algjörlega löglegum flutningum. Þó svo að við séum að gera algjörlega löglega hluti þá eru önnur yfirvöld að setja á okkur heilmikinn þrýsting,“ segir Anna Guðný.

„Við Íslendingar þurfum að spyrja okkur hvar við stöndum ef yfirvöld eru farin að banna flutning á löglega veiddum afurðum í höfnum Evrópu. Hér liggur beinast við að velta upp makrílveiðum Íslendinga, sem aðrar þjóðir hafa lagst mjög gegn.“

Frétt mbl.is: Greenpeace stöðvaði Samskip

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert