Segir ríkisfjármálin í uppnámi

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon mbl.is/Ómar

„Það yrði gríðarlegt áfall fyrir trúverðugleika efnahagsáætlunar Íslands ef við stefndum aftur í halla á ríkissjóði upp á tugi milljarða,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sem varar við afleiðingum þess að skerða tekjustofna ríkissjóðs með skattalækkunum og öðrum aðgerðum.

„Ef menn lokuðu næstu fjárlögum með meiri halla en þessum færum við aftur á bak og það mun hafa mjög neikvæð áhrif og draga úr trúnni á það að Ísland sé áfram á réttri leið. Við þurfum að búa okkur undir að það gæti haft neikvæð áhrif á lánshæfismatið - allavega gert út um vonir okkar um að fá það hækkað - og skuldatryggingarálagið gæti verið næmt fyrir þessu. Og þetta gæti torveldað öðrum aðilum en ríkinu að komast út á alþjóðlegan fjármálamarkað og fá þar ásættanleg kjör.

Það besta sem við getum gert okkur vonir um er að ná hægt og bítandi að þoka málum í rétta átt. Það er mikilvægt að þróunin sé í rétta átt, þótt hún hafi verið hægari en menn hafi viljað. Það hefur kostað svo miklar fórnir að komast á þann stað sem við erum komin á að það væri dýrkeypt að missa það niður. Þess vegna er mikið í húfi. Ég segi það í fyllstu einlægni að ég vona að menn reyni enn að halda sig á sporinu og stefna að því að ná hallalausum fjárlögum á næsta ári.“

Unnið í samstarfi við AGS

Steingrímur segir breytingarnar á tekjustofnum ríkissjóðs ganga gegn samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

„Við erum búin að keyra á þessari áætlun síðan 2011. Við endurskoðuðum hana í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á fyrri hluta árs 2011 og þar var niðurstaðan ... að stefna að hallalausum fjárlögum 2014. Við erum búin að vinna samkvæmt þessu síðan og allir sem með okkur fylgjast vita það. 

Til þess að markmiðið um hallalaus fjárlög á næsta ári gengi upp gerði ríkisfjármálaáætlunini ráð fyrir því að halda öllum tekjum sem voru í grunninum. Ef menn framlengja ekki tímabundnar tekjuráðstafanir eða hverfa frá einhverjum varanlegum tekjupóstum verða að koma aðrar tekjur á móti. Einhverjar mótvægisaðgerðir,“ segir Steingrímur og tiltekur þær breytingar sem hann telur ógna þessu markmiði.

Milljarðar í mínus fyrir ríkissjóð

„Þetta sumarþing afgreiddi lækkun á tekjum ríkisins eða útgjöld á þessu ári upp á rúmlega 4,5 milljarða. Þá legg ég saman tekjutap vegna virðisaukaskattsins upp á 538 milljónir í mínus, lækkun veiðigjalda upp á 3,2 milljarða í mínus og útgjöld vegna almannatrygginga sem gætu verið um 800 milljónir í mínus. Samanlagt er tekjutapið um 4,5 milljarðar. Fjárlagagatið stækkar sem þessu nemur á þessu ári,“ segir Steingrímur og vísar m.a. til þess að ný ríkisstjórn hætti við fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna í haust. 

Að sögn Steingríms sýna tölur frá fjármálaráðuneytinu að virðisaukaskattsbreytingin muni þýða 1,5 millarða í mínus á næsta ári og lækkun veiðigjalda þýða 6,4 milljarða í mínus. Þá muni breytingar á almannatryggingakerfinu, nánar tiltekið tekjutengingum, þýða 3 milljarða í aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Við það bætist 1,5 milljarðar í aukin útgjöld vegna annarra breytinga í almannatryggingakerfinu. Samanlagt þýði þessir fjórir liðir um 12,4 milljarða í mínus fyrir ríkissjóð á næsta ári. Til viðbótar muni afnám auðlegðarskatts kosta ríkissjóð 8,5 milljarða króna á næsta ári.

„Ég hef því sagt að talan hlaupi á 20 milljörðum plús sem fjárlagagatið verði stærra aðeins af þessum ástæðum á næsta ári.“

Mikill barnaskapur í umræðunni

- Hvað með það sjónarmið að það muni auka umsvif í hagkerfinu að lækka skatta og að þess vegna muni þetta jafnast út?

„Ef menn eru tilbúnir að gera þá tilraun skal ég lofa mönnum að það koma engir 20 milljarðar á móti svona löguðu einn, tveir og þrír. Það er einhver mesti barnaskapur sem boðið er upp á í umræðum um þessi mál. 

Vissir hlutir geta auðvitað leitt af sér einhverja örvun en oftast tekur það sinn tíma og það er mjög háð því hvers konar ráðstafanir það eru. Væntanlega myndu fræðin og reynslan segja að ívilnandi aðgerðir sem dragi úr launatengdum kostnaði við nýráðningar, svo sem eins og lækkun tryggingargjalds, væru kannski líklegastar til að skila til baka. En það gerist heldur ekki einn, tveir og þrír. Það tekur sinn tíma,“ segir Steingrímur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert