Þrjár lægðir á matseðlinum

Trausti Jóns­son veður­fræðing­ur skrif­ar á veður­bloggi sínu um lægðirn­ar þrjár sem sækja munu landið heim. Fyrsta lægðin, sú sem nú geng­ur yfir landið, er gerðarleg­ust og með allra dýpstu hálofta­lægðum á þess­um árs­tíma hér við land.

Seg­ir Trausti frem­ur kalt vera í lægðarmiðjunni og því sé sjáv­ar­málsþrýst­ing­ur ekki nærri meti. Í norðanátt­inni annað kvöld á svo að snjóa í fjöll norðan­lands, e.t.v. niður í 400 til 600 metra. Hvassviðri eða storm­ur á fjöll­um kem­ur til með að fylgja hríðinni sem geng­ur fljótt yfir.

Næstu lægð seg­ir Trausti vera grynnri en hún fer yfir landið á mánu­dag. Smá­lægð er langt suður í hafi og gæti hún haft þau áhrif að úr­kom­an drag­ist til suðurs þannig að lægðarmiðjan fari yfir sunn­an­vert landið eða sunn­an við á mánu­dag.

Því næst geng­ur hæðar­hrygg­ur yfir landið og gera sum­ar spár ráð fyr­ir að hon­um fylgi tals­vert hlýrra loft en það sem verið hef­ur yfir land­inu að und­an­förnu. „Hæsta tala sem sést yfir land­inu í spá evr­ópu­reikni­miðstöðvar­inn­ar frá há­degi í dag [fimmtu­dag] er 5600 metr­ar - þá yfir Aust­ur­landi seint á þriðju­dags­kvöld. Væri það á há­degi í létt­skýjuðu veðri myndi það duga í 25 til 27 stiga hita - en hér er allt á hraðferð og um miðja nótt þannig að ekki lít­ur allt of vel út með að við sjá­um slík­ar töl­ur,“ skrif­ar Trausti á bloggi sínu.

Trausti lýk­ur svo bloggi sínu á eft­ir­far­andi hátt: „Svo bíða fleiri lægðir - en það er allt í óljósri framtíð.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert