Þrjár lægðir á matseðlinum

Trausti Jónsson veðurfræðingur skrifar á veðurbloggi sínu um lægðirnar þrjár sem sækja munu landið heim. Fyrsta lægðin, sú sem nú gengur yfir landið, er gerðarlegust og með allra dýpstu háloftalægðum á þessum árstíma hér við land.

Segir Trausti fremur kalt vera í lægðarmiðjunni og því sé sjávarmálsþrýstingur ekki nærri meti. Í norðanáttinni annað kvöld á svo að snjóa í fjöll norðanlands, e.t.v. niður í 400 til 600 metra. Hvassviðri eða stormur á fjöllum kemur til með að fylgja hríðinni sem gengur fljótt yfir.

Næstu lægð segir Trausti vera grynnri en hún fer yfir landið á mánudag. Smálægð er langt suður í hafi og gæti hún haft þau áhrif að úrkoman dragist til suðurs þannig að lægðarmiðjan fari yfir sunnanvert landið eða sunnan við á mánudag.

Því næst gengur hæðarhryggur yfir landið og gera sumar spár ráð fyrir að honum fylgi talsvert hlýrra loft en það sem verið hefur yfir landinu að undanförnu. „Hæsta tala sem sést yfir landinu í spá evrópureiknimiðstöðvarinnar frá hádegi í dag [fimmtudag] er 5600 metrar - þá yfir Austurlandi seint á þriðjudagskvöld. Væri það á hádegi í léttskýjuðu veðri myndi það duga í 25 til 27 stiga hita - en hér er allt á hraðferð og um miðja nótt þannig að ekki lítur allt of vel út með að við sjáum slíkar tölur,“ skrifar Trausti á bloggi sínu.

Trausti lýkur svo bloggi sínu á eftirfarandi hátt: „Svo bíða fleiri lægðir - en það er allt í óljósri framtíð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert