Víkingur í byggingavöruverslun

Öxi
Öxi mbl.is/Árni Torfason

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir frá því á facebooksíðu sinni að tilkynning hafi borist um mann með kastöxi í byggingavöruverslun. Starfsfólk lýsti manninum sem ófrýnilegan mann mjög, en sá hafi spurt hvort hægt væri að fá brýni til kaups, en síðan gert sér lítið fyrir, tekið kastöxi mikla úr belti sínu og tekið til við að leggja öxina á. 

Lögreglan segir að starfsfólki hafi skiljanlega brugðið, enda ekki vitað hvað viðskiptamaðurinn hygðist fyrir með öxina að brýningu lokinni.

Lögregla kom fljótt og vel á vettvang enda útkallið þesslags að betra væri að koma fyrr en síðar. Er lögregla kom á vettvang reyndist maðurinn pollrólegur og komu þessu afskipti honum nokkuð á óvart.

Kappinn reyndist hafa verið á leið heim af víkingahátíð og hafi dottið í hug að koma við og kanna með brýni fyrir öxina, en sú væri notuð við víkingasýningar og orðin eilítið bitlaus.

Víkingurinn var beðinn um að hafa exina ekki uppi við, enda kynni fólk að misskilja slíkt, tók hann vel í málið. Ekkert hefur verið tilkynnt um víkinga með axir síðan þetta kom upp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert