Svani Elíassyni á Hvammstanga blöskraði hátt tóbaksverð en tók málin í eigin hendur og hóf að rækta sitt eigið tóbak. Plönturnar eru nú utandyra og dafna vel.
Þetta kemur fram á vefnum feykir.is. Þar segir Svanur frá því að hann hafi keypt tóbaksfræ frá Bandaríkjunum í gegnum netið. Í upphafi hafi hann haft plönturnar innandyra en í júní hafi hann farið með þær út og dafni þær nú vel.
Hann segist ekki líta svo á að grænir fingur hafi dregið hann út í ræktun, fremur hafi það verið hátt tóbaksverð. Í fréttinni segir jafnframt að eftir að ræktun lýkur taki við um sex vikna þurrkunarferli. Þá segir Svanur að hann telji tóbaksræktun ekki ólöglega og að hann óttist ekki að hún verði stöðvuð.