Jón Árni Jónsson, prófarkalesari á Morgunblaðinu, komst villulaust í gegnum stafsetningarkeppnina á Landsmóti UMFÍ á Selfossi sem nú fer fram.
Jón Árni hreppti því gullverðlaunin en fimm keppendur voru jafnir með tvær villur og hlutu silfurverðlaun. Jón Árni keppti undir merkjum Íþróttabandalags Akureyrar.
Þetta kemur fram á vef UMFÍ en nú fer fram Landsmót ungmennafélaga.
„Ég hef hvorki komið sem áhorfandi né keppandi áður á Landsmót. Ástæðan fyrir því að ég skellti mér á þetta mót var að mágur minn bað mig að koma. Ég gat ekki skorast undan því. Hver veit nema ég verði fastagestur á mótunum hér eftir,“ sagði Jón Árni.
„Það kemur sér vel að starfa sem prófarkalesari í þessari keppni en ég held að ég hefði sagt upp ef ég hefði ekki unnið. Íslenskan liggur vel fyrir mér en prófið sem slíkt fannst mér ekki erfitt, það var eiginlega léttara en ég bjóst við. Ég er stoltur yfir því að fara villulaust í gegnum þetta,“ sagði Jón Árni sem hefur starfað sem prófarkalesari á Morgunblaðinu í 3-4 ár en hafði áður starfað á öðrum fjölmiðlum.
Meðal orða sem keppendur voru látnir spreyta sig á voru: Seytlar, vorþeyjunum, Ýrarfossstöð, dýjamosanum og gegndarlaust.