Lögin líklega til Ólafs á morgun

Ólafur Ragnar Grímsson fundar með Agnari Þorsteinssyni og Ísaki Jónssyni …
Ólafur Ragnar Grímsson fundar með Agnari Þorsteinssyni og Ísaki Jónssyni sem safnað hafa undirskriftum gegn lögunum um veiðigjöld.

„Þetta var sent á föstudaginn í prentun frá skrifstofu þingsins og er væntanlegt í dag. Þá sendum við það upp í atvinnuvegaráðuneytið. Það gengur síðan frá staðfestingartillögu og sendir það síðan til forsætisráðuneytisins sem sér um að koma því til forseta Íslands. Þannig er gangurinn í þessu.“

Þetta segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, í samtali við mbl.is spurður út í það hver staðan sé á lögum um veiðigjöld sem samþykkt voru fyrir helgi. Lögin gera ráð fyrir lækkun gjaldanna en skorað hefur verið á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að neita að undirrita lögin og vísa þeim þannig í þjóðaratkvæði.

Spurður hvenær lögin gætu verið komin til forsetans segir Helgi að það gæti gerst á morgun. „Mér þykir líklegast að þetta gæti verið á borði forsetans á morgun.“ Lögin kæmu úr prentun í dag og færu þá strax til atvinnuvegaráðuneytisins.

Ólafur fundaði á laugardaginn með Agnari Þorsteinssyni og Ísaki Jónssyni sem safnað hafa undirskriftum gegn lögunum um veiðigjöld og daginn áður með þingmönnum Pírata. Eftir fundinn sagðist Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, ekki bjartsýnn á að forsetinn vísaði málinu í þjóðaratkvæði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert