Ákvörðun forsetans kom ekki á óvart

Jón Gunnarsson
Jón Gunnarsson mbl.is

„Þetta er í samræmi við það sem ég reiknaði með að yrði niðurstaða forsetans,“ segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar, um þá ákvörðun forsetans að staðfesta lög um lækkun veiðigjalds.

„Ég hef áður sagt að ég tel að þetta mál sem er í raun tekjuöflunareðlis fyrir ríkissjóð sé mál sem henti ekki í þjóðaratkvæðagreiðsu, auk þess sem hér sé um að ræða tímabundna löggjöf í raun og veru sem hefur áhrif á ríkissjóð um sem nemur 2,6 milljörðum. Það stendur fyrir dyrum að endurskoða þetta kerfi í heild sinni núna á haustþingi eða á komandi þingi. 

Afleiðingar þess ef þetta hefði farið í þjóðaratkvæðagreiðslu hefði líka verið ófyrirséðar. Það hefði getað gert mjög erfitt með álagningu á sérstöku veiðigjaldi fyrir komandi fiskveiðiár sem gat ekki verið markmiðið, því almenn sátt er um það meðal okkar í pólitíkinni og hagsmunaaðila og þjóðarinnar að það eigi að vera við lýði einhvers konar veiðigjöld.“

Tölurnar hjá formanni Samfylkingar ofmetnar

- Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, nefnir 3 milljarða á síðari hluta þessa árs og 6,5 milljarða á því næsta, í samhengi við áhrif lækkunarinnar á veiðigjaldinu, eða samanlagt 9,5 milljarða. Eru þetta réttar tölur?

„Talan er 2,6 milljarðar [á þessu ári] samkvæmt umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, þ.e. 3,2 milljarðar á þessu ári mínus 600 milljónir í auknar skatttekjur. Síðan eru þetta 6,4 milljarðar áætlaðir á næsta ári en þá er ekki farið að taka tillit til aukinna tekjuskattsgreiðslna. Þannig að upphæðin er ekki svo há.

Það er ekki ástæða til að tala um næsta ár í þessu samhengi heldur vegna þess að þá er stefnt að því að verði komin ný lög sem nálgist þetta mál með öðrum hætti. Þetta hefur verið notað í hinni pólitísku umræðu til að slá keilur, að nefna tíu milljarða [á þessu ári og því næsta] sem fæst ekki staðist við nánari skoðun.

Það bíður okkar mikil vinna og við eigum að hlusta á þessar undirskriftir sem skilaboð um það að almenningur vill hafa hér veiðigjöld. Það er mikilvægt fyrir okkur að reyna að vinna að víðtækri sátt um gjaldtöku á því á komandi haustþingi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert