Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ætlar að staðfesta lög um sérstakt veiðigjald sem samþykkt voru á Alþingi fyrir helgi. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem forsetinn hélt á Bessastöðum í dag. Forsetinn fékk á laugardag afhentar undirskriftir um 35 þúsund Íslendinga með hvatningu um að synja lögunum.
Forsetinn sagði að þegar hann hefði á grundvelli 26. greinar stjórnarskrárinnar vísað lögum til þjóðarinnar hafa þau varðað grundvallar atriði í lýðræðisskipan eða efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga.
„Nýting höfuðauðlindar þjóðarinnar er á vissan hátt hliðstætt grundvallarmál, bæði skipan fiskveiða og greiðslur vegna afnota,“ sagði forsetinn á fundinum en þar las hann upp yfirlýsingu sína vegna málsins.
Hann sagði að með lögum um veiðigjald sem Alþingi hefur nú afgreitt væri ekki verið að breyta skipan fiskveiða og áfram verði greitt til þjóðarinnar, bæði almennt veiðigjald og sérstakt veiðigjald.
Þá sagði hann meginefni laganna að áformuð hækkun komi ekki til framkvæmda og breytt væri hlutföllum uppsjávarveiða og botnfiskveiða. Þá hækkuðu greiðslur til fyrirtækja ýmist eða lækkuðu. Nefndi hann að forseta laganna væri einnig að gjöldin yrðu endurskoðuð á næsta þingi.
„Lögin fela í því ekki í sér grundvallarbreytingar á nýtingu auðlindarinnar en kveða á um tímabundnar breytingar á greiðslum til ríkisins og sköttum til nýtingar,“ sagði Ólafur Ragnar.
„Að vísa lögum að því tagi í þjóðaratkvæðagreiðslu væri svo afdrifaríkt fordæmi að víðtækar umræður og breiður þjóðarvilji þyrfti að vera að baki slíkri nýskipan“.
Því ætlaði hann að staðfesta lögin.
Forsetinn fékk afhendan undirskriftalista með nöfnum um 35 þúsund manns á laugardag þar sem skorað var á hann að synja lögum um sérstök veiðigjöld staðfestingar og vísa þeim þar með í þjóðaratkvæði.
Lögin komu úr prentun í gær á vegum Alþingis og fóru í kjölfarið til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem gekk frá staðfestingartillögu. Þaðan voru lögin send til forsætisráðuneytisins sem kom þeim áfram til forsetans í dag.
Frétt mbl.is: Segir forsetann skorta hugrekki
Frétt mbl.is: Hvetur til varanlegrar sáttar