„Það er því ekkert í núgildandi stjórnskipan sem gerir veiðigjaldafrumvarpið óhæft til þjóðaratkvæðis. Veiðigjaldafrumvarpið á ekkert síður erindi þangað en lögin um Icesave. Bæði lúta frumvörpin að fjárhagslegum hagsmunum almennings. Það er nú einfaldlega staðreyndin. Forsetinn stendur því frammi fyrir frjálsu vali. Niðurstöðu þess þarf hann að útskýra fyrir þjóðinni.
Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni í dag vegna áskorana á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að undirrita ekki lög um veiðigjöld. Lögin skiluðu sér til forsetans í dag og hefur hann boðað til blaðamannafundar síðar í dag vegna málsins. Árni Páll segir þannig ekkert því til fyrirstöðu að fjárlagafrumvarp sé sett í þjóðaratkvæði miðað við núgildandi stjórnskipun þó fólki kunni að þykja það fáránlegt.
„Það er hægt að hafa þá skoðun að æskilegt sé að tekjuöflunarfrumvörp og milliríkjasamningar eigi ekki erindi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er skiljanleg afstaða – var til dæmis afstaða Stjórnlagaráðs – og ég sé marga kosti við slíka almenna reglu ef við værum að marka leikreglur stjórnarskrárinnar upp á nýtt. Slík regla er bara ekki til staðar í íslenskri stjórnskipan í dag og við erum ekki að marka nýjar leikreglur,“ segir Árni.
Þvert á móti séu leikreglurnar sem í gildi eru með þeim hætti að öll frumvörp séu seld undir synjunarvald forseta. „Forsetinn hefur sjálfur hafnað því að einhver mörk liggi við því valdi og ég er út af fyrir sig sammála honum í því mati.“