„Ég átti svo sem ekki von á að hann gerði eitthvað annað,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður vinstri grænna, og fulltrúi í atvinnuveganefnd. „Ég hef ekki bundið sérstakar vonir við hann áður í þessum efnum, enda tel ég hann ekki vera þann öryggisventil sem hann gefur í skyn að hann sé.“
Lilja Rafney vill lítið gefa fyrir röksemdafærslu forsetans fyrir ákvörðuninni um að staðfesta lögin um veiðileyfagjöldin. „Mér fannst hann reyna að tína upp úr hattinum sínum þau rök sem hentuðu hans ákvörðun, en mér fannst hann vera í mótsögn við sjálfan sig.“ Nánar segir hún að tal hans um að veiðigjöldin væru skattur, ekki sannfærandi. „Þetta fellur ekki undir lög um skatta, heldur eru þetta sérstök lög um veiðigjöld. Þetta er auðlindarenta sem er verið að innheimta.“
Einnig finnst Lilju forsetinn draga heldur úr tekjutapi sem ríkið muni verða fyrir. „Hann segir þetta draga aðeins úr tekjum ríkissjóðs um 3 milljarða, en annað segir fjárlagaskrifstofa ríkisins.“
Lilja bætir við að hún telur undirskriftasöfnunina hafa verið til fyrirmyndar. „Ég tel að stjórnvöld eigi að taka mark á henni fyrst og fremst, og sérstaklega þeim þunga sem er í þessari stóru söfnun á stuttum tíma. Mér finnst að stjórnvöld eigi að hlusta á þau skilaboð sem koma frá þessum hluta þjóðarinnar sem skrifar þarna undir.“