Nánast brunninn til kaldra kola

Halldór Sveinbjörnsson

Eldur kom upp í litlum fiskibát sem staddur var norðvestur af Garðskaga um klukkan fimm í morgun. Einn maður var í bátnum og var honum bjargað um borð í nærstaddan fiskibát sem flutti hann að landi. Maðurinn er ómeiddur.

Varðstjóri á stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands segir í samtali við mbl.is að tilkynnt hafi verið um eldinn klukkan 05:05 en þá var sjómaðurinn búinn að klæða sig í flotgalla og kominn um borð í björgunarbát. Ekki reyndist þörf á að setja þyrlu Landhelgisgæslunnar í viðbragðsstöðu því mikill fjöldi báta var nálægur þegar eldurinn kom upp en skamman tíma mun hafa tekið að bjarga manninum um borð í annan fiskibát.

Að sögn varðstjóra var mjög mikill eldur laus í bátnum auk þess sem sprengihætta var talsverð því gaskútar voru um borð. „Fyrir um hálftíma síðan fengum við svo þær fregnir að lítið væri eftir af bátnum. Hann er nánast brunninn til kaldra kola,“ segir varðstjóri í samtali við mbl.is.

Laust fyrir klukkan hálfátta voru 860 strandveiðibátar komnir á sjó.

Fyrri frétt mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert