„Þetta er ákveðin vonbrigði, ég átti von á að hann myndi taka stöðu með þjóð sinni í þessu máli, en hann gerði það ekki,“ sagði Ísak Jónsson í kjölfar ákvörðunar forsetans um að staðfesta lög um veiðigjöld. Ísak er einn aðstandenda undirskriftasöfnunarinnar Óbreytt veiðigjöld, en hann fór ásamt Agnari Kristjáni Þorsteinssyni, öðrum upphafsmanni undirskriftasöfnunarinnar á Bessastaði á laugardag og afhenti forsetanum undirskriftir þar sem hann var hvattur til þess að staðfesta ekki lögin.
„Mér finnst röksemdir hans ansi veikar, ég er ekki mikið fyrir þetta. Útgerðin er vel borgunarfær fyrir þessum veiðigjöldum og þess vegna séu þetta ekki sterkar röksemdir. Mér finnst hann aðallega hafa skort hugrekki í þessu máli.“
Ísak segist ekki hafa fylgst með blaðamannafundinum, en segir þær röksemdir sem forsetinn viðraði á fundi þeirra um daginn ekki sterkar. „Á fundinum hjá honum um daginn hafði hann uppi ákveðnar röksemdafærslur um að það sé varhugavert að skattar, eins og hann orðaði það, færu í þjóðaratkvæði.“
Um framhaldið segir Ísak að nú sé í raun lítið hægt að gera. „Framhaldið er nú ósköp lítið. Við stóðum upp úr sófanum, eins og tugþúsundir annarra Íslendinga og reyndum, en þetta stendur þá bara svona núna og lítið við því að gera.
Ísak segist vona að undirskriftasöfnunin gefi tóninn fyrir framtíðina. „Ég er að vona að þetta verði til þess að það verði fest í sessi að þjóðin fái sanngjarnan arð af sinni auðlind. Ég ætla að vona að menn hugsi sig alla veganna tvisvar um í framtíðinni ef þeir hyggja lækka gjaldið enn frekar eða slíkt.“
Frétt mbl.is: Hvetur til varanlegrar sáttar
Frétt mbl.is: Forsetinn staðfestir lög um veiðigjald