Sníður stjórninni þröngan stakk

Árni Páll Árnason.
Árni Páll Árnason. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég held að það megi nú í fyrsta lagi segja að þessi ákvörðun forseta skapar ríkisstjórnarmeirihlutanum afar lítið svigrúm til að lækka þetta gjald með varanlegum hætti þegar að nýtt frumvarp um veiðigjöld verður lagt fram á næsta þingi,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.

Tilefnið er sú ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, að staðfesta lög um lækkun veiðigjalds.

Árni Páll rökstyður þá skoðun sína að staðfesting laganna skapi ríkisstjórnarmeirihlutanum lítið svigrúm í málinu svo:

„Vegna þess að forsetinn tekur það sérstaklega fram í þessum rökstuðningi að hér sé um tímabundna löggjöf að ræða. Hann gefur sér reyndar að lækkun veiðigjalds sé lægri en hún er. Hann talar um 3 milljarða en það er auðvitað aðeins talan fyrir það hálfa ár sem er eftir af þessu ári. Þetta eru auðvitað nærri 6,5 milljarðar á ári sem er verið að afsala þarna.

Þetta eru auðvitað umtalsverðar fjárhæðir en hann [forsetinn] gefur sér að þetta sé óveruleg fjárhæð og einungis til eins árs. Það er forsenda ákvörðunarinnar. Af því má ráða að svigrúm stjórnvalda til að ganga lengra með því annaðhvort að afsala þjóðinni slíkum fjárhæðum til langframa, eða afsala umtalsverðum fjárhæðum í veiðileyfagjaldi, sé lítið,“ segir Árni Páll og vísar til þess mats að veiðigjöldin lækki um 6,5 milljarða á næsta ári vegna breytinganna á lögunum.

Hissa á forsetanum

Fram kom í svari Ólafs Ragnars við spurningu Ingveldar Geirsdóttur blaðakonu að hann hefði síðan hann var fjármálaráðherra ekki gert greinarmun á gjöldum og sköttum. Öll opinber gjöld væru í eðli sínu skattar.

Árni Páll gagnrýnir þessa túlkun forsetans.

„Svo vekur athygli að forsetinn skuli ekki gera efnislegan greinarmun á veiðigjaldi og sköttum. Það er auðvitað grundvallarmunur á auðlindagjaldi, gjaldi fyrir notkun á sameiginlegum auðlindum og aðstöðu, og sköttum. Það myndi ekki nokkrum manni detta í hug að kalla sérleyfi til fólksflutninga skatt eða aðra forréttindaaðstöðu sem öllum finnst eðlilegt að sé greitt fyrir.

Með nákvæmlega sama hætti felur veiðigjaldið í sér sérleyfi til nýtingar á auðlind sem er takmörkuð og verður ekki öðrum veitt. Þar af leiðandi er það algjörlega fráleitt að kalla þetta skatt. Ég er svolítið hissa á að forsetinn hafi ekki sterkari fræðilegan grunn fyrir ákvörðun sinni hvað varðar vísan til allra þeirra miklu fræða sem lúta að skilgreiningu á auðlindarentu og afmörkun hennar og nauðsyn þess að hún sé innheimt í eðlilegu efnahagsumhverfi,“ sagði Árni Páll.

Viðmið forsetans á reiki

- Forsetanum voru afhentar 35.000 undirskriftir núna, eða fleiri en þegar tekist var á um fjölmiðlalögin 2004. Hefurðu skoðun á því hvort forsetinn hefði átt að fara að vilja þessa hóps í veiðigjaldamálinu?

„Viðmiðin sem lúta að allri umgjörð þessara beiðna [um að vísa málum í þjóðaratkvæði] eru að mínu mati mjög á reiki hjá forsetanum. Hann hefur áður vísað í þjóðaratkvæði máli með færri undirskriftum. Hann segir núna að þetta mál hafi ekki verið alvöru átakamál vegna þess að við búum svo vel núna að eiga málefnalega stjórnarandstöðu sem hefur ekki áhuga á því að efna til málþófs að óþörfu. Það virðist vera sem að forsetinn líti á málþóf á Alþingi Íslendinga sem forsendu með einhverjum hætti fyrir beitingu þessarar heimildar. Það þykir mér vera mikil nýlunda og hlýtur auðvitað að vera veruleg áminning til stjórnarandstöðu um að endurhugsa málefnalega framgöngu á Alþingi Íslendinga.

Við þurfum kannski að velta fyrir okkur hvort það sé yfir höfuð stjórnskipunarlegt svigrúm fyrir stjórnarandstöðu til að vera jafn málefnaleg og yfirveguð og við vorum á sumarþingi, hvort að það sé beinlínis gerð krafa til okkar um að ganga fram með öðrum hætti af hálfu forseta,“ segir Árni Páll Árnason. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert