Mikil umræða hefur verið undanfarið í kjölfar umdeildrar handtöku á Laugarveginum um helgina. Jón Viðar Arnþórsson, fyrrverandi lögreglumaður og formaður bardagaíþróttaklúbbsins Mjölnis, segir að handtökukerfið sem lögreglan á Íslandi noti sé mun hættulegra en önnur handtökukerfi, meðal annars þau sem notað er í sumum fylkjum Bandaríkjunum, Frakklandi, Ástralíu og víðar.
„Þetta kerfi sem er notað núna er viðurkennt handtökukerfi á Íslandi og í Noregi og var tekið upp fyrir einhverjum örfáum árum. Mín sjón á þetta kerfi, miðað við það sem ég hef séð og skoðað og prófað, er að þetta er tækni sem er notuð til að yfirbuga fólk og koma í handjárn, hún er hættuleg bæði þeim sem framkvæmir handtökuna og borgaranum sem er handtekinn,“ segir Jón Viðar.
Hann segir að ef sá sem lögreglumaður hyggst handtaka streitist á móti sé hætta á að borgarinn annaðhvort handleggsbrotni, fari úr axlarlið eða beinlínis falli á andlitið. Lögreglumaðurinn hefur litla stjórn á því. Þó sé alls ekki við lögreglumennina að sakast, því þessi aðferð sé kennd í Lögregluskóla ríkisins.
„Eitt aðaltakið er að grípa í annan handlegginn á manneskjunni og draga hana að sér og snúa niður með því að beyta þrýsting á olnbogann. Ef manneskjan streitist á móti gæti hún meiðst á olnboga, fyrir utan að það eru mjög litlar líkur á að þetta tak virki. Ástæðan fyrir því er einföld, þú heldur bara í handlegginn á viðkomandi, sem þyrfti að vera miklu meira veikburða en lögreglumaðurinn sem framkvæmir handtökuna, eða mjög drukkin,“ segir Jón Viðar.
Takið er að sögn Jóns Viðars ekki notað í neinum bardagaíþróttum þar sem sé full mótspyrna. „Ástæðan fyrir því er einföld: þetta virkar ekki. Ef það myndi virka þá væri það notað, hvort sem það væri harkalegt eða ekki. Þannig að kerfið er hvort tveggja hættulegt og virkar ekki,“ segir Jón Viðar. „Þetta er notað, í stað þess að nota öflug tök sem virka, en eru öruggari en þessi tök.“
Sjálfur sótti hann námskeið í handtökum í Bandaríkjunum og lærði þar tök sem hann segir að svipi mjög til þeirra taka sem bardagaíþróttamenn beiti á æfingum hjá honum í Mjölni. „Þau eru hvort tveggja miklu öruggari fyrir þann sem beitir þeim og þann sem er beittur þeim, það eru miklu minni líkur á að hann slasist. Það er eitthvað sem maður vill helst koma í veg fyrir þegar maður er að handtaka fólk.“
Jón Viðar segir að tökin sem kennd séu hjá lögreglunni virki einungis ef hinn handtekni í raun leyfir handtökunni að fara fram og streitist ekki á móti. „Þetta þarf eiginlega að vera „kóreógraffað,“ þetta myndi virka í bíómynd en ekki úti á götu.“
Hann segir lögregluna hafa styrkt hann, þegar hann var að afleysingarmaður í lögreglunni, til að læra handtökutækni í Bandaríkjunum. Yfirmenn lögreglunnar í Reykjavík, Ríkislögreglustjóri og Landsamband Lögreglumanna tóku vel í hinar nýju aðferðir, en hann mætti andstöðu þegar hann hóf nám í Lögregluskólanum og þar við sitji. „Þeim leist ekkert alltof vel á að það væri einhver nemi að segja þeim til, þó svo að ég hafi á þeim tíma haft miklu meiri reynslu af átökum en þeir.“