Flestir vilja búa miðsvæðis

Flestir Reykvíkingar vilja búa í vesturhluta borgarinnar, miðbæ og nærliggjandi …
Flestir Reykvíkingar vilja búa í vesturhluta borgarinnar, miðbæ og nærliggjandi hverfum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Miðborg Reykjavíkur og Vatnsmýrin reyndust vinsælust af mögulegum nýbyggingarsvæðum í Reykjavík í nýrri búsetukönnun. Flestir telja helstu ókosti síns hverfis vera mikla bílaumferð, skort á verslun og þjónustu og slakt strætisvagnakerfi. Almennt virðist fólk vilja búa í blönduðum hverfum.

Könnunin var unnin fyrir Reykjavíkurborg og rannsóknarverkefnið Betri borgarbragur. Niðurstöðurnar sýna m.a. að um helmingur svarenda býst við því að flytja og skipta um húsnæði innan 5 ára, flestir innan borgarinnar.

Margir leita eftir minna húsnæði

76% Reykvíkinga búa í eigið húsnæði árið 2013, sem er færra en í síðustu könnun 2007 þegar þessi tala var 80%. Margir svarendur segjast jafnframt leita eftir minna húsnæði en þeir búa núna í. Um 14% eru leigjendur, aðallega yngra fólk og eru flestar leiguíbúðir annars vegar í miðbæ og hins vegar í Grafarholti - Úlfarsárdal.

Mjög hátt hlutfall fólks sem er 29 ára eða eldra býr enn í foreldrahúsum, eða 38%. Flesta dreymir um að eignast eigið einbýlishús, en ef tekið er tillit til efnahags telur rúmlega helmingur svarenda að þeir muni flytja í íbúð í fjölbýlishúsi. 

Vinsældir miðborgarinnar aukast

Þegar spurt var hvar fólk vill helst búa í borginni kom í ljós að elstu hverfin í Reykjavík halda stöðu sinni og eru vinsælust. Hlutfallslega flestir vilja búa áfram í sama hverfi og eru Vesturbæingar ánægðastir því 84% þeirra vilja vera áfram í sínu hverfi. Breiðhyltingar virðast óánægðastir, en 53% þeirra vilja heldur búa í öðru hverfi.

Flestir, eða 33%, virðast vilja búa í hverfi þar sem eru í bland fjölbýlishús, raðhús og einbýlishús.

Einnig var spurt hvert af fyrirhuguðum nýbyggingasvæðum borgarinnar höfðar mest til fólks. Miðborgin reyndist vinsælust, á bilinu 20-32% völdu hana og hafa vinsældir hennar aukist frá því í síðustu könnun 2007. Næstflestir völdu Vatnsmýri, á bilinu 12-18% en Úlfarsárdal völdu 9-14%. 

Talsverður munur er milli félagshópa þegar kemur að vali á ákjósanlegum nýbyggingasvæðum. Miðborgin virðist höfða mest til bæði yngsta og aldurshópsins en Úlfarsárdalurinn einna mest til fólks á miðjum aldri. Nýbyggingasvæðin í Vatnsmýri og Úlfarsárdal höfða helst til tekjuhæstu hópanna með stór heimili en miðborgin til einstaklinga og para með lágar tekjur.

Fellur vel að nýju aðalskipulagi

Í blaðinu Borgarsýn, sem umhverfis og skipulagssvið Reykjavíkurborgar gefur út, um segir að niðurstöður könnunarinnar falli vel að áætlun borgaryfirvalda um að auka íbúabyggð í vesturhluta borgarinnar. 26% svarenda eru hlynntir þéttingu í íbúabyggð og 50% eru hlynntir íbúabyggð á eldri atvinnusvæðum.

Nýtt aðalskipulag gerir ráð fyrir lágreistri byggð og leggur m.a. áherslu á styttri ferðatíma en áður, betri nýtingu veitukerfa og líflegt mannlíf. Hús verða t.a.m. ekki hærri en 5 hæðir innan Hringbrautar í Reykjavík og mun svæðið njóta sérstakrar hverfisverndar.

Niðurstöður könnunarinnar má sjá hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert