Arnar Guðmundsson, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins segir reynslu lögreglunnar af handtökuaðferðunum sem kenndar eru við lögregluskólann vera góða.
„Handtökuaðferðir eru mjög svipaðar víðast hvar í heiminum. Handtökur okkar voru lengi vel eftir danskri fyrirmynd, eða allt fram til ársins 1993. Eftir það fóru þjálfarar við lögregluskólann í aukið samstarf við norðurlandaþjóðirnar. Þeir hölluðust svo að svokölluðu norsku kerfi, en það þótti þeim einfalt, aðgengilegt og öruggt.“
„Norsku aðferðirnar byggja á viðamiklum rannsóknum. Þeir settu á laggirnar vinnuhóp þar sem voru lögreglumenn, kennarar í bardagaíþróttum, læknar og fleiri. Þeir settu niðurstöðurnar svo í kennslubók.“ Arnar segir bókina hafa verið notaða í kennslu í Noregi frá árinu 2007, en á íslandi frá og með skólaárinu 2010/2011.
„Við handtöku er gert ráð fyrir að tveir lögreglumenn séu að störfum. Aðstæður kunna hins vegar að koma upp þar sem lögregluþjónn þarf að vera einn að störfum.“
Arnar segir norsku aðferðina þá einu sem sé viðurkennd af lögreglunni. „Það er sú aðferð sem við kennum og við ætlumst til þess að henni sé beitt. Við hjá lögreglunni gætum þurft að mæta fyrir dóm og útskýra þær handtökuaðferðir sem við kennum, og því er mikilvægt að þeim sé fylgt eftir. Hins vegar kunna að koma upp þær aðstæður þar sem lögreglan þarf að fara út fyrir settar leikreglur.“
Hann vill ekki tjá sig efnislega um gagnrýni Jóns Viðars Arnþórssonar sem birtist á mbl.is í gær, en hann segir fólki frjálst að hafa skoðanir á handtökuaðferðum. „Okkar reynsla er hins vegar sú að norska aðferðin hefur reynst vel.“