Þriggja manna hönnunarteymi hefur á undanförnum vikum unnið að því að lífga upp á útlit Bernhöftstorfunnar við Lækjargötu í því skyni að gera staðinn meira aðlaðandi sem áningarstað fyrir gesti miðborgarinnar en t.d. er búið að fylla gryfjuna þar með vatni og ofan á því flýtur litríkur skúlptúr.
Hönnuðirnir eru þau Friðrik Steinn Friðriksson upplifunarhönnuður, Laufey Jónsdóttir fatahönnuður og Sigurður Arent Jónsson listamaður. Verkefnið er hluti af Torg í biðstöðu sem er á vegum Reykjavíkurborgar, en mbl.is hefur áður sagt frá slíku verkefni, þar sem fimm stúlkur lífga upp á garð í Grjótaþorpinu.