Borgarráð samþykkti að selja Magma-bréfið

Meirihlutinn í borgarráði samþykkti að selja bréfið, en minnihlutinn greiddi …
Meirihlutinn í borgarráði samþykkti að selja bréfið, en minnihlutinn greiddi atkvæði á móti. mbl.is/Hjörtur

Borgarráð staðfesti í dag ákvörðun stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur um að taka tilboði að fjárhæð 8,6 milljarðar króna í skuldabréf í eigu fyrirtækisins sem Magma gaf út árið 2009. Fjórir fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar greiddu atkvæði með sölunni en þrír fulltrúar minnihlutans voru á móti.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum þann 21. júní sl. að taka tilboði í skuldabréfið. Tilboðsgjafi, sjóður á vegum Landsbréfa hf.,  gerir fyrirvara um endanlega fjármögnun.

Borgarbyggð og Akraneskaupstaður hafa þegar staðfest ákvörðunina og hún er til umfjöllunar hjá Reykjavíkurborg.

Skuldabréfið, sem var gefið út af Magma Energy Sweden A/B árið 2009, var hluti greiðslu fyrir hlut OR í HS Orku, sem seldur var eftir að samkeppnisyfirvöld settu eignarhaldi OR í fyrirtækinu skorður. Á bak við bréfið stendur veð í hlutabréfum í HS Orku. Í fréttatilkynningu frá Orkuveitunni segir að undirbúningur sölu skuldabréfsins hefur staðið frá í ágúst 2012 að stjórn OR fól forstjóra að kanna möguleika á sölu þess.

Orkuveitan segir að salan þjóni þeim tilgangi að bæta lausafjárstöðu OR og að draga úr áhættu af því að eiga svo mikla fjármuni í einu óskráðu skuldabréfi.

Ósáttir við tímasetninguna

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn sölu skuldabréfsins. Kjartan Magnússon segist styðja sölu skuldabréfs ef viðunandi tilboð fæst. Margt benti hins vegar til að tímasetning sölunnar sé óheppileg. „Álverð hefur lækkað verulega að undanförnu og er nú afar nálægt skilgreindu lágmarki samkvæmt skilmálum bréfsins eða í kringum 1.800 dali. Í gögnum málsins verður ekki séð að sú afleiða, sem felst í viðmiði við álverð, hafi verið verðmetin. Ýmsar spár um álverð gefa til kynna að álverð muni hækka á næstu árum. Þá er ljóst að verið er að auka gjaldeyrisáhættu Orkuveitunnar, verði umræddu tilboði tekið. Ekki er ráðlegt að auka gengismisvægi í efnahag Orkuveitunnar við núverandi aðstæður,“ segir Kjartan.

Kjartan gagnrýndi einnig að ákvörðun um að selja skuldabréfið væri tekin í borgarráði án þess að bera málið undir borgarstjórn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert