Segjast hafa hindrað flutning á hvalkjöti

Höfnin í Hamborg í Þýskalandi.
Höfnin í Hamborg í Þýskalandi. Wikipedia/Slader

Grænfriðungar komu í veg fyrir að sex gámar af hvalkjöti yrðu fluttir um borð í flutningaskip í Hamborg í Þýskalandi í gær og þaðan til Japans. Þetta kemur fram á fréttavefnum Softpedia.com í dag. Gámarnir höfðu áður verið fluttir í land í þýsku hafnarborginni úr flutningaskipinu Cosco Pride vegna þess að skráningarupplýsingar virtust ekki fullnægjandi samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins.

Samskip fluttu hvalkjötið til Rotterdam í Hollandi þar sem því var umskipað í Cosco Pride. Snurðulaust gekk að umskipa hvalkjötinu þar en þegar til Hamborgar var komið kröfðust tollverðir þess að gámarnir yrðu fluttir í land þar til farið hefði verið yfir skjöl sem fylgdu þeim. Í millitíðinni hélt Cosco Pride áfram ferð sinni án kjötsins.

Eftir að gefið hafði verið grænt ljós á flutning hvalkjötsins um Hamborg stóð til að koma því um borð í annað flutningaskip en Grænfriðungar gripu þá meðal annars til þeirra aðgerða að tjóðra sig við landfestar þess. Varð úr að skipið hélt úr höfn án þess að hafa gámana sex með hvalkjötinu um borð. Fram kemur á heimasíðu Grænfriðunga að væntanlega hafi flutningafyrirtækið ekki nennt að standa í því að eiga við þá.

Gámarnir eru á leið aftur til Rotterdam samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins og þaðan er búist við að þeir fari aftur til Íslands. Ekki er þó víst að flutningur hvalkjötsins gangi jafn snurðulaust fyrir sig í Rotterdam að þessu sinni eins og síðast vegna andstöðu stjórnvalda við flutning slíks kjöts um hollenskar hafnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert