Var ekki fær um það sjálf að strjúka

Geðdeild Landspítalans við Hringbraut.
Geðdeild Landspítalans við Hringbraut. mbl.is/Sigurður Bogi

Faðir ungrar konu, sem lýst var eftir í dag, fimmtudag, segir að hún hafi verið numin á brott af lokaðri geðdeild og 4 dagar hafi liðið áður en lögregla  brást við. Fyrstu viðbrögð lögreglu lýsi skilningsleysi á stöðu sjúklings með geðrof sem geti verið í lífshættu án meðferðar, en hún þjáist m.a. af átröskun og vegur aðeins 45 kíló.

„Það var farið með þetta eins og það væri ekkert mál, þarna væri bara geðsjúklingur að strjúka af Landspítalanum,“ segir Einar Björn Þórir Þórðarson, faðir konunnar. Hann er jafnframt skipaður lögráðamaður hennar eftir að hún var svipt sjálfræði til 12 mánaða af Héraðsdómi Vesturlands í maí.

Gat ekki skipulagt flótta sjálf

Um hádegi í dag lýsti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu eftir dóttur hans með þeim orðum að hún hafi strokið af geðdeild. Einar segir hins vegar að dóttir hans hafi ekki strokið heldur verið numin á brott af fyrrverandi sambýlismanni, sem setið hafi um hana á meðan hún sætti lífsnauðsynlegri meðferð á geðdeild.

„Þessi náungi vissi vel að það var búið að svipta hana sjálfræði og að honum var meinað um að hitta hana,“ segir Einar. „Hún var ekki fær um það sjálf að skipuleggja einhvern flótta. Hún var inni á lokaðri geðdeild og mátti varla hafa hjá sér útvarp. Enginn mátti hringja í hana nema við; mamma hennar og pabbi.“

Fannst strax þegar byrjað var að leita

Dóttir hans var á heilsubótargöngu með starfsmanni spítalans á sunnudag þegar tveir menn óku upp að henni á gráum bíl, tóku hana upp í og óku með hana burt. Einar bendir á að þar sem dóttir hans sé ekki sjálfráð gjörða sinna sé þetta sambærilegt við að nema barn á brott.

Afar erfitt hafi hins vegar reynst að koma lögreglu í skilning um alvarleika málsins. Formleg leit að henni hófst ekki fyrr en í dag, 4 dögum eftir að hún hvarf, og innan nokkurra klukkustunda fannst hún á Egilsstöðum þaðan sem verið er að flytja hana aftur á geðdeild. 

„Við erum afskaplega þakklát lögreglu fyrir að finna hana og þetta sýnir líka hvers lögreglan er máttug þegar boðleiðirnar eru réttar, því hún fannst eins og skot um leið og þeir nálguðust þetta eins og hefði átt að gera frá upphafi,“ segir Einar. 

Hætta á sjálfsskaða

Sjúkrasaga dóttur hans nær aftur til 16 ára aldurs. Í apríl síðast liðnum var hún svo lögð inn á geðdeild til nauðungarvistunar. Að sögn Einars var hún þá í geðrofsástandi með ofskynjunum og ranghugmyndum sem líklega hafði staðið í töluverðan tíma. 

Í eftirlýsingu lögreglu í dag sagði að konan væri „áberandi horuð“, en hún þjáist af undirliggjandi átröskun og vegur aðeins 45 kíló að sögn föður hennar. Hún hefur verið á fljótandi fæði og var talin hætta á enn frekara þyngdartapi.

Í mati frá læknum hennar, sem lagt var fyrir Héraðsdóm Vesturlands við sjálfræðissviptinguna í maí, sagði að horfur á bata væru mjög slæmar og henni yrði jafnvel nauðsyn að sæta meðferð svo mánuðum skipti. Þar sagði jafnframt að hún hafi lítið innsæi í eigin veikindi og telji sig ekki þurfa á meðferð að halda. Hætta sé á því að hún vinni sjálfri sér skaða.

„Foreldrar svipta ekki börnin sín sjálfræði að ástæðulausu en við gerðum það að ráðgjöf lækna þar sem hún verður að fá meðferð,“ segir Einar. „Þetta sýnir líka að hún er ekki fær um það sjálf að strjúka. Þótt hún setjist inn í bíl hjá einhverjum þá er hún ekki að strjúka því ábyrgðin er hjá þeim sem keyrir með hana burt. Þessi náungi vissi vel að það var búið að svipta hana sjálfræði.“

Skilningsleysi á alvarlegum geðsjúkdómum

Einar segir að maðurinn sem nam dóttur hans á brott í dag hafi náð tangarhaldi á henni, einangrað hana og nýtt sér veikt ástand hennar um nokkurt skeið. „Þangað til hún hringir í okkur 8. apríl og biður okkur um að bjarga sér. Og við gerðum það og fórum með hana beint á geðdeild. Við höfum enga aðstoð né þekkingu til að annast manneskju með geðrof.“

Á þeim tæpum þremur mánuðum sem dóttir hans hefur sætt meðferð á lokaðri geðdeild hefur fyrrverandi sambýlismaður hennar setið um hana og segir Einar að kallað hafi verið  eftir lögreglu í tvígang til að vísa honum burt frá spítalanum.

„Starfsfólk Landspítalans hefur reynst algjörlega frábærlega. Við erum heppin að eiga svona gott fólk sem sinnir vinnu sinni af alúð.“ Eftir áralöng veikindi dóttur hans segir Einar hinsvegar að reynslan sé því miður sú að talsvert vanti upp á skilning samfélagsins á stöðu þeirra sem glíma við svo alvarlega geðsjúkdóma. Mál eins og dóttur hans gæti endurtekið sig. 

„Við erum mjög þakklát fyrir að hún hafi fundist en erum slegin yfir því hversu lengi lögreglan var að taka við sér, þetta átti auðvitað að gerast strax á mánudaginn. Við viljum ekki kenna einum eða neinum um, við viljum bara fá dóttur okkar aftur og að rétt sé gert.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert