„Lærdómurinn sem við getum dregið af lánsfjáráætluninni til Íslands og Grikklands er að of bjartsýnar spár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa þann tilgang að þjóna hagsmunum erlendra lánardrottna,“ skrifar Lilja Mósesdóttir, fyrrverandi þingmaður VG, um samstarfið við AGS á erlendum vef um stjórnmál.
Ísland sé nú „láglaunaland þar sem einkaskuldir eru í methæðum og fjármagnshöft við lýði til að hindra að gengi gjaldmiðilsins hrynji“.
Lilja fjallar um samtarf AGS við Ísland og Grikkland á vef Social Europe Journal, stjórnmálavef sem sagður er endurspegla frjálslynd viðhorf í stjórnmálum.
Lilja sagði sig úr þingflokki VG á sama tíma og Atli Gíslason, eða í mars 2011, og voru þau síðan óháðir þingmenn.
Hafði Lilja þá gagnrýnt samstarfið við AGS ítrekað en flestir ef ekki allir þingmenn Vinstri grænna voru andvígir því í árslok 2008, þar með talið Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi formaður VG. Vék Steingrímur m.a. að „landstjóranum nýja eða stiftamtmanninum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum“ í harðri gagnrýni á fyrirmæli frá sjóðnum um niðurskurð þegar fjárlög komu til lokaumræðu fyrir jól 2008.
Steingrímur skipti síðan um skoðun gagnvart samstarfinu við sjóðinn eftir að minnihlutastjórnin tók við í febrúar 2009 og svo áfram eftir að Samfylkingin og VG unnu mikinn kosningasigur í apríl sama ár.
Lilja var hins vegar alltaf gagnrýnin á samstarfið AGS og átti það þátt í brotthvarfi hennar úr VG.
Segir niðurstöðu AGS ranga
Hagvaxtarspár AGS komu mikið við sögu í umræðum um Icesave en til þess var vísað að sjóðurinn spáði 4-5% hagvexti á fyrstu árunum eftir hrunið og var það notað sem röksemd fyrir því að íslenska ríkið væri aflögufært fyrir greiðslunum.
Lilja skrifar á vef Social Europe Journal að fáir Íslendingar taki undir þá greiningu AGS að Ísland hafi árið 2011 útskrifast úr velheppnaðri viðreisnaráætlun sjóðsins.
Hún segir að við hrunið á Íslandi hafi orðið mikil eignatilfærsla frá skuldurum með verðtryggð lán yfir til fjármagnseiganda. Í Grikklandi hafi hins vegar aukinn ójöfnuður og fátækt dýpkað gjána sem þegar var til staðar milli ólíkra þjóðfélagshópa.
Lilja skrifar einnig að skattheimta sé skilvirkari á Íslandi en í Grikklandi og að það hafi gert íslenskum stjórnvöldum kleift að verja þá sem áttu undir högg að sækja vegna þrenginga í efnhagslífinu.
Hún skrifar að í stað þess að styðja almennar afskriftir hafi AGS farið þá leið að láta verðbætur leggjast ofan á verðtryggð lán og að í staðinn skyldi farið í tímafreka aðstoð við heimili og fyrirtæki í skuldavanda þar sem eitt mál sé tekið fyrir í einu.