„Ég er bara föst. Hann vill ekki skilja og mætir ekki á boðaða fundi. Hann heldur mér í fjárhagslegri kreppu því ég fæ ekki húsaleigubætur meðan ég get ekki flutt lögheimili mitt frá honum.“ Þetta segir kona sem stendur í skilnaði við mann sinn.
Konan segir að eiginmaður sinn hafi beitt hana og börn þeirra andlegu og líkamlegu ofbeldi. Hún segist hafa verið mjög brotin eftir sambúðina, en á endanum fengið kjark til að yfirgefa hann og fara fram á skilnað. Hann neitar hins vegar að skilja og vill að hún komi heim aftur. Eiginmaður hennar hefur verið boðaður á fundi hjá sýslumanni til að ræða um skilnaðinn, en hann hefur ekki mætt.
Konan býr ásamt börnum sínum við erfiðar fjárhagslegar- og félagslegar aðstæður. Hún segist ekki hafa peninga til að ráða sér lögmann og það gerist ekkert í hennar málum. Maðurinn haldi henni í algerri sjálfheldu og bíði bara eftir því að hún gefist upp og komi heim.
„Ég ætla ekki til hans aftur,“ segir konan en segist ekki sjá hvernig hún komist út úr þessari stöðu. Hún segist hafa fengið þær upplýsingar frá Félagi einstæðra foreldra að það geti tekið nokkur ár að ganga frá skilnaði þegar makinn neitar að samþykkja skilnað. Hún segist nauðsynlega þurfa á húsaleigubótum að halda, en hún fái þær ekki greiddar meðan hún sé með lögheimili á sama stað og maðurinn. Eins fái hún ekki meðlag fyrr en skilnaðurinn sé genginn í gegn.
Ekki er hægt lögum samkvæmt að flytja lögheimili barna af heimili nema að það sé samkomulag um það milli foreldra sem standa í skilnaði. Mörg dæmi eru um það að foreldri sem flytur út af heimilinu láti hjá líða að flytja lögheimili sitt ef ágreiningur er um hjá hvoru foreldra barnið skuli hafa lögheimili. Menn vilja ekki lenda í þeirri stöðu að börnin séu með lögheimili hjá makanum áður en samið hefur verið um svo veigamikil atriði og eiga þá jafnvel á hættu að missa rétt.
Oftast nær eru hjón sammála þegar tekin er ákvörðun um skilnað. Það er sýslumaður sem gengur frá skilnaðinum eftir að fólk sem er í trúfélagi framvísar sáttavottorði frá presti. Ef fólk er sammála um skilnað er hægt að fá lögskilnað sex mánuðum síðar.
„Ef það er ekki samkomulag um skilnaðinn þarf sá sem fer fram á skilnað að sækja skilnaðinn fyrir héraðsdómi,“ segir Katrín Theódórsdóttir, lögmaður, sem m.a. hefur unnið fyrir Félag einstæðra foreldra. Til hennar leita m.a. þeir sem standa í hjónaskilnaði.
„Til að hægt sé að gefa út leyfi til skilnaðar að borði og sæng þá þarf að vera búið að ganga frá forsjá barnanna ef hjónin eiga börn saman eða hjá hvoru foreldri barnið hafi lögheimili. Þá þarf að liggja fyrir samningur um eignaskipti. Sex mánuðum síðar er unnt að gefa út leyfi til lögskilnaðar. Ef ekki semst um þessi atriði verður samt sem áður hægt að ganga frá skilnaðinum hjá sýslumanni eftir að ágreiningnum hefur verið komið í eðlilegt ferli, þ.e. með höfðun forsjármáls eða ákveðið hefur verið um opinber skipti með úrskurði dómara. Ef annar aðili vill ekki skilnað getur hann hins vegar dregið skilnaðinn mikið á langinn. Hann getur tafið ferlið með því að mæta t.d. ekki hjá sýslumanni eða mætir hjá sýslumanni en samþykkir ekki kröfuna um hjónaskilnað og þá er makinn í þeirri stöðu að þurfa að sækja um skilnað fyrir dómstólum.
Þegar svona er háttað má gera ráð fyrir að ágreiningur sé um flesta þætti málsins, en þá er oft krafist skilnaðar samhliða kröfunni um forsjá barna eða lögheimili þeirra og ef það eru eignir í búinu þurfa að fara fram opinber skipti til fjárslita vegna hjónaskilnaðar. Það er í sjálfu sér ekki dómsmál heldur er kveðinn upp úrskurður um að opinber skipti megi fara fram að kröfu aðila og er þá skipaður skiptastjóri í búinu,“ segir Katrín.
Katrín segir hjónaskilnaði geta tekið talsverðan tíma þó að hjón séu sammála um að skilja ef ágreiningur er um forsjármál og/eða eignaskipti. „Ef hjón eru sammála um að skilja getur sýslumaður gefið út leyfi til lögskilnaðar um leið og búið er að höfða málið og kominn er úrskurður um opinber skipti. Ef hjón eru hins vegar ekki sammála um að skilja getur sýslumaður ekki gefið út leyfi til skilnaðar, en þá getur oft liðið langur tími þar til unnt verður að ganga frá skilnaði sem er auðvitað bagalegt sérstaklega þar sem réttarstaða þess foreldris sem er með börnin miðast við skilnaðinn, s.s. rétturinn til meðlags með börnum og réttur til greiðslu húsaleigubóta og barnabóta“.
Samkvæmt breytingum á barnalögum, sem tóku gildi á síðasta ári skal sýslumaður bjóða foreldrum sem ekki eru sammála um forsjármál að fara í sáttameðferð. Tilgangur ákvæðisins er að hjálpa foreldrum að ná sáttum varðandi forsjá og umgengni barns við það foreldri sem það býr ekki hjá til að koma í veg fyrir erfið dómsmál. Með nýjum barnalögum var sáttaferlið gert að skyldu áður en málið fer til dómstóla. Katrín segir að þegar lögin tóku gildi hafi sýslumenn almennt ekki verið undirbúnir undir þetta nýmæli og mál tafist af þeim sökum. Hún segir að þetta nýja ákvæði geti þýtt að ferill þessara ágreiningsmála lengist, en það muni ráðast af skilvirkni sýslumannsembætta. Nú er það svo að fólk hafi þurft að bíða lengi eftir sáttameðferð og síðan geti sáttaferlið tekið langan tíma. En gera megi ráð fyrir að í mörgum tilvikum hafi foreldrunum tekist að semja svo ekki hafi þurft að leggja út í dómsmál.