Gengið um regnvotar sumargötur

Vegfarendur á horni Skólavörðustígs og Laugavegs.
Vegfarendur á horni Skólavörðustígs og Laugavegs. mbl.is/Golli

Síðan í júní hafa s.k. „sumargötur“ verið við lýði í Reykjavík þriðja árið í röð, en þá er lokað  fyrir bílaumferð um hluta miðborgarinnar frá kl. 12 alla daga. Síðustu sumur hafa þessar lokanir mælst afar vel fyrir en í ár hefur ekki verið eins sumarlegt um að litast. Miðborgarstjóri segir þó almennt gott hljóð í fólki í miðborginni.

„Rysjótt tíð geta gert viðskiptin eilítið sveiflukenndari, en oft getur líka örlítil skúr hleypt lífi í viðskiptin því fólk skýtur sér þá undir þak og verslar í góðu skjóli. Það getur líka virkað lamandi á verslun ef veðrið er allt of gott því þá vilja kúnnarnir bara vera úti að sóla sig,“ segir Jakob Frímann Magnússon, framkvæmdastjóri Miðborgarinnar okkar.

Nú er tíðin önnur

Síðasta sumar mældist mikil ánægja með sumarlokanir á Laugavegi og Skólavörðustíg. 94% vegfarendar sögðust ánægðir með lokunina og 75,6% rekstraraðila. Umferð gangandi vegfarenda jókst um þriðjung á meðan lokað var fyrir bílaumferð.

En nú er tíðin önnur. Þoka og rigning hafa einkennt sumarið á höfuðborgarsvæðinu. Aðspurður segir Jakob Frímann þó ekki hafa komið til tals að hætta við götulokanir á slíkum dögum.

„Það hefur enginn ljáð máls á því. Enda, þó að Íslendingar sjálfir komi kannski freka þegar styttir upp þá eru allir hinir, sem búnir eru að kaupa sér ferðir hingað og vilja kynnast stemningunni í miðborg Reykajvíkur, þeir eru á vappinu í stærri hópum en nokkru sinni fyrr í Íslandssögunni og menn geta varla borið sig illa þegar þeir fá slíkan afla á land.“ 

Galla sig upp á „fleece street“

Jakob Frímann bendir einnig á að þeir sem ekki bjuggust við rigningunni þurfi ekki að örvænta yfir skorti á hlífðarfatnaði. „Þeir sem koma hér lítt undirbúnir til okkar fjölbreytilega veðurfars hafa sjálft „fleece street“ í Bankastræti til að galla sig upp og gera það óspart. Og það sem meira er þá er regnhlífin orðin sjálfsagt apparat í Reykjavík, en hún var nú frekar sjaldséð hér áður fyrr.“

Sumarlokunin hefur því tekist vel þrátt fyrir veðrið að sögn Jakobs Frímanns, og ýmsar fínstillingar átt sér stað til að sætta ólík sjónarmið. „Það er verið að gera ákveðnar tilraunir í smáskömmtum og prófa sig áfram. Ingólfstorgið er annað tilraunaverkefni sem er heldur ekki óumdeilt, en það má segja að þegar þú ert í svona lifandi umhverfi eins og miðborg hlýtur að vera þá er mikilvægt að verða ekki of fastur í sömu förum heldur gefa nýjum hugmyndum tækifæri og svigrúm til að prófa sig áfram.“

Hvorki rætt um styttingu né lengingu

Í einmuna blíðunni síðasta sumar tókst svo vel til að rekstraraðilar við Skólavörðustíg óskuðu eftir því að framlengja lokuninni um viku. Aðspurður hvort til greina komi að framlenga núna ef skyndilega bresti á með blíðu síðsumars segir Jakob Frímann allt opið í þeim efnum.

„Það hefur hvorki verið rætt um að sytta né lengja enda erum við bara rétt hálfnuð. Þetta hófst í júníbyrjun og lýkur í ágústbyrjun og þá verða sjálfir lykilaðilarnir að ákveða með framhaldið.“

Þoka yfir Skólavörðuholtinu.
Þoka yfir Skólavörðuholtinu. mbl.is/Styrmir Kári
Jakob Frímann Magnússon
Jakob Frímann Magnússon mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert