Makrílafli það sem af er árinu var orðinn um 14 þúsund tonn í gær, samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu. Fyrir réttu ári var búið að veiða um 32 þúsund tonn.
Halldór Kristinsson, skipstjóri á Sæhamri SH, byrjaði á makrílveiðum á þriðjudaginn var og fékk þá tvö tonn. Í fyrradag var veðrið ekki gott en í gær var hann kominn með hátt í tvö tonn þegar rætt var við hann um þrjúleytið. Hann er með fimm rúllur og 40 króka á hverri rúllu.
„Það er lítið að sjá hérna við landið,“ sagði Halldór þar sem hann var að veiðum 2-3 sjómílur undan Hellissandi. Vaðandi makríll hefur sést á Breiðafirði undanfarið. Þótt hann vaði þá er það ekki endilega veiðanlegt magn í byrjun vertíðar, að sögn Halldórs. Hann sagði að sjórinn sé kaldari nú en hann var á sama tíma í fyrra og það skýri líklega hvers vegna makrílvertíðin fer hægar af stað en þá.