Veðurbarðir Íslendingar sem eru í ferðahug leita sér flestir að flugferðum til borga Evrópu þar sem sumarið er hið besta. Þetta kemur m.a. fram í verðkönnun hugbúnaðarfyrirtækisins Dohop sem á og rekur flugleitarvefinn Dohop.is.
Flogið er til yfir fimmtíu flugvalla í beinu flugi frá Íslandi núna í sumar. Helsta samkeppnin á flugi er til borga í Evrópu og eru lágfargjaldaflugfélögin alltaf með lægsta verðið. Athuga verður hins vegar að töskugjöld geta bæst ofan á verðin þeirra. Heilt yfir hefur verð aðeins hækkað frá verðkönnun Dohop í maí en meðalbreytingin er hækkun um 11,17%. En þó hefur verð á flugi til Helsinki, Manchester og Alicante lækkað milli tímabilana.
Mikill verðmunur
Mestur verðmunur er á milli WOW air og Lufthansa til Düsseldorf og Hamborgar í Þýskalandi en þar munar yfir 60 þúsund krónum. Þar á eftir er flug til Barcelona á Spáni og Berlínar í Þýskalandi. Til þessar áfangastaða fljúga þrjú flugfélög í sumar. Til Barcelona fljúga Icelandair, WOW air og Iberia og er mestur munurinn á milli Icelandair og WOW air, rúmar 40.000 krónur. Til Berlínar fljúga hins vegar WOW air, Air Berlin og Lufthansa og er mestur munur þar á verðinu milli WOW air og Air Berlin, tæpar 50.000 krónur.
Hvert er ódýrast að fara?
Miðað við niðurstöður verðkönnunarinnar er ódýrast að fara til Manchester, London og Edinborgar. EasyJet býður þar upp á bestu verðin en ódýrasta flugfarið er í kringum 23.000 til Manchester en þá er miðað við að farið sé í september. Ódýrasta flugfargjaldið frá Íslandi ef farið er strax í næstu viku og dvalið í viku er til Manchester fyrir 33.500 með easyJet, þar er sumarið einmitt búið að vera flott. Enn betra veður er í Alicante á Spáni en þangað er flugverðið ódýrast 21. júlí á 58.771 með easyJet og RyanAir og flogið heim aftur 10 dögum síðar. Á www.dohop.is/away er að finna ódýrustu flugin frá Íslandi strax í dag.
Aðferð
Dohop beitir sambærilegri aðferð og Hagstofa Íslands við samantekt gagna á fargjöldum. Þrjár dagsetningar eru skoðaðar hverju sinni: Sú fyrsta er eftir tvær vikur (um 23. júlí), önnur eftir fjórar vikur (um 6. ágúst) og þriðja eftir átta vikur (um 3. september). Í hverri viku eru allir 7 dagar skoðaðir með vikudvöl í huga og meðaltal hverrar viku er endanlegt verð fyrir það tímabil.