Menntaskóli Borgarfjarðar fór ótroðnar slóðir fyrir sex árum síðan þegar skólinn var stofnaður og bauð strax upp á þriggja ára nám til stúdentsprófs og hefur nú útskrifað yfir 100 nemendur eftir þriggja ára nám. Skólinn er einkahlutafélag.
„Þetta var mikil nýjung þá en hefur gengið afskaplega vel,“ segir Kolfinna Jóhannesdóttir skólameistari.
„Skólaárið hjá okkur er lengra, en við kennum út prófatímann svo nemendur eru í kennslu alveg fram í byrjun júní og fá í staðinn fleiri einingar á hverju skólaári.“ Í skólanum er lögð rík áhersla á símat og leiðsagnarmat, ásamt jafnara álagi yfir allt skólaárið.