„Við stöðvuðum framkvæmdirnar hér á Laugaveginum. Bak við húsið okkar er svokallaður Hampiðjureitur. Þeir hafa verið að bora hérna alla daga allan liðlangan daginn í allt sumar og það er ekkert hægt að búa hérna þegar þetta er svona,“ segir Hlynur Jónsson sem býr ásamt unnustu sinni, Þuru Garðarsdóttur, á Laugaveginum en þau hafa þurft að þola mikinn hávaða vegna bygginga sem rísa eiga á reitnum. Þau fengu nóg þegar hávaðinn byrjaði eldsnemma í morgun, á laugardegi og fóru út og stöðvuðu framkvæmdirnar.
„Það er reglugerð sem segir að það megi bara bora á virkum dögum og þeir hafa brotið þessar reglur ítrekað þannig að við fórum þarna út eldsnemma í morgun þegar þeir voru byrjaðir að bora og tókum reglugerðina með okkur. Þarna var einn starfsmaður að vinna við höggbor. Þura, unnustan mín, fór inn á svæðið og settist niður fyrir framan vinnuvélina. Þá hringdum við í lögregluna og hún kom ásamt starfsmanni aðalverktakans og við sýndum þeim reglugerðina og þeir stoppuðu framkvæmdirnar,“ segir Hlynur, en í reglugerðinni segir að sérstaklega hávaðasamar framkvæmdir séu óheimilar um helgar. Þess má geta að Þura er ólétt, komin sex mánuði á leið.
Hávaðinn stendur yfir að sögn Hlyns frá morgni til kvölds alla daga vikunnar nema á sunnudögum. En það hefur verið unnið nánast undantekningalaust alla laugardaga í sumar. „Framkvæmdirnar eru skammt á veg komnar, en mesti hávaðinn er af höggbornum og þeir segja að því eigi að ljúka í vikunni. Það verður spennandi að sjá hvort þeir standa við það,“ segir Hlynur en á reitnum á að rísa bæði sjö hæða íbúðarhúsnæði og fjögurra hæða, ásamt bílakjallara.
Nágrannarnir við reitinn eru orðnir langþreyttir og hafa stofnað með sér hóp á facebook til að bera saman bækur sínar, en hópurinn ber nafnið Hampiðjuhávaði. Hlynur setti þar inn í morgun á síðuna hvað þau hefðu gert til að stöðva framkvæmdirnar og virtust nágrannarnir ánægðir með framtakssemi þeirra. Þar var skrifað af Hlyni: „