Íslandsmót fullorðinna í hestaíþróttum stendur nú yfir í Borgarnesi, en mótið hófst á fimmtudag. Hátt í 230 skráningar voru á mótið og margir hestaunnendur sem hafa látið sjá sig til að líta á gæðingana. Veðrið hefur verið stillt og gott að sögn mótshaldara.
Keppt var í öllum helstu greinum á mótinu og mun liggja fyrir á morgun hverjir hreppa Íslandsmeistaratitlana, en úrslit verða á morgun.
Einn Íslandsmeistaratitill liggur fyrir, það er Bjarni Bjarnason og Hera frá Þóroddsstöðum sem voru fljótust í 100 metra skeiði og eru Íslandsmeistarar í greininni á 7,79 sekúndum.
Sigurbjörn Bárðason hefur þó nú þegar sett aðra hönd á nokkra titla, en hann er með besta tímann í 150 metra og 250 metra skeiði eftir fyrsu umferð. Seinni umferðin verður á sunnudag. Þá er Sigurbjörn Bárðarson einnig efstur á Jarli frá Mið-Fossum og Leó Geir Arnarson á Krít frá Miðhjáleigu eftir forkeppni í tölti. Þeir eru hnífjafnir og verða því úrslitin eflaust mjög spennandi, en þar eru bestu töltarar landsins eins og Vornótt frá Hólabrekku og Viðar Ingólfsson.
Í fjórgangi eru efstu þrír hestar einnig mjög jafnir. Efstur er þó Eyjólfur Þorsteinsson og Hlekkur frá Þingnesi eftir forkeppni með einkunnina 7,50. Á hæla þeirra koma tveir þekktir gæðingar, Hrímnir frá Ósi og Guðmundur Björgvinsson ásamt Eldi frá Köldukinn og Jakobi Svavari Sigurðssyni, en þeir uppskáru báðir 7,47 eftir forkeppni.
Í fimmgangi er einnig spennandi keppni, en þar eru tveir jafnir í efsta sætinu eftir forkeppni. Jakob Svavar Sigurðsson og Alur frá Lundum II ásamt Sylvíu Sigurbjörnsdóttir á Héðni Skúla frá Oddhóli, bæði með 7,40 í einkunn.
Þá leiðir Jakob Svavar Sigurðsson og Alur frá Lundum II einnig örugglega í slaktaumatölti eftir forkeppni með 8,80 og eiga nokkuð greiða leið að Íslandsmeistaratitlinum á morgun.