Skiptar skoðanir um breytt rekstrarform

„Bandaríkin reka dýrasta heilbrigðiskerfi heims og er þar um að kenna óhagkvæmum einkarekstri. Þetta dýra kerfi hefur ekki skilað bandarískum almenningi öruggri né góðri þjónustu. Af þessu ættu aðrar þjóðir að draga lærdóm.“

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Facebook-síðu sinni í dag í tilefni af viðtali í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun við Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. Þar sagði hann að ýmislegt annað væri í boði en að ríkið stæði í rekstri heilbrigðisþjónustu. Ráðuneytið ætti að hans mati að vera stefnumótandi á grundvelli löggjafar frá Alþingi en síðan sæju aðrir um beinan rekstur þjónustunnar sem væru færari til þess en ráðuneytin sjálf.

Kristján sagði endurskipulagningu heilbrigðiskerfisins nauðsynlega. Íslendingar hefðu tvo kosti í heilbrigðismálum. Halda áfram á sömu braut og þrengja sífellt að heilbrigðisþjónustunni og skerða þar með lífsgæði þjóðarinnar eða hlúa að þeirri grunnstoð sem heilbrigðiskerfið væri og koma í veg fyrir að ganga þyrfti lengra á þrautaveginum. Það þýddi að forgangsraða þyrfti þeim takmörkuðu fjármunum sem kæmu í ríkissjóð hverju sinni með öðrum hætti en gert hafi verið undanfarin ár.

Einkaaðilar veitt heilbrigðisþjónustu með ágætum

„Ég heyrði hann einungis tala fyrir fjölbreyttum rekstrarformum í heilbrigðisþjónustu en ekki víðtækari einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni í dag. Ólík rekstrarform geti skilað góðum árangri og einkaaðilar veittu þegar mikla velferðarþjónustu og gerðu það með ágætum. Gott væri hins vegar að vita nákvæmar hvað Kristján hefði í huga.

„Ríkið þarf að vita hvaða þjónustu það er að kaupa, geta varið sig fyrir því að einkaaðilar skammti sér endurgjald og vaði í sameiginlega sjóði og hafa ríkt eftirlit með gæðum þjónustunnar. Þar skortir enn mikið á,“ segir hann ennfremur. Stóra spurningin væri alltaf hver ætti að greiða fyrir þjónustuna.

„Frá upphafi almennra sjúkratrygginga hafa jafnaðarmenn sett það sem skilyrði að ríkið borgi alltaf fyrir þjónustuna og að enginn geti komist framar í biðröð vegna þess að hann geti borgað meira. Þetta eru grundvallaratriði sem eru ekki umsemjanleg.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert