Njósna um fyrrverandi á Facebook

Þó facebook sé ekki orsakavaldur framhjáhalds getur það verið vettvangur
Þó facebook sé ekki orsakavaldur framhjáhalds getur það verið vettvangur KAREN BLEIER

„Facebook getur auðvitað verið freisting, þetta er alveg opin lína og það getur veitt krydd í tilveruna að spjalla við einhvern á þeim vettvangi,“ segir Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur en hún segir samskiptasíðuna geta valdið titringi í ástarsamböndum. „Þetta getur byrjað mjög sakleysislega þegar annar aðilinn hefur samtal við gamlan skólafélaga eða gamla ást, en getur svo þróast í eitthvað meira án þess að viðkomandi hafi ætlað sér það í upphafi.“ Þá segir hún að þegar upp kemst um persónuleg samtöl maka við annan aðila geti það valdið sömu tilfinningu og framhjáhald, þó svo að líkamleg snerting hafi aldrei átt sér stað.

Tortryggni í eðli mannsins

Hún segir ráð sín vera skýr, fólk eigi ekki að vera á gráu svæði, heldur vera með skýrar línur. „Ég segi að engin lykilorð eigi að vera leyndarmál, ef þú veist lykilorð maka þíns og hann er rólegur með það getur verið að þörfin til þess að kíkja á síðuna sé ekki til staðar.“

Hún segir það vera í eðli mannsins að vera tortrygginn og óöruggur og því sé algengt að  fólk laumist til þess að kíkja á síðu maka síns, þó það sé mismunandi eftir fólki. „Ef trúnaðarbrot hefur áður orðið í sambandi, getur það setið lengi í manneskjunni og lítið þurft til að það blási upp aftur,“ en hún segir tortryggni vera eitt það versta að ná úr sambandi.

Í meðalmánuði fær Kolbrún til sín eitt til tvö pör sem eiga við vandamál tengd Facebook að stríða og enginn aldurshópur er viðkvæmari en aðrir. „Síðan er alveg jafn mikil freisting fyrir ungt fólk og miðaldra.“

Þá segir hún enga algilda reglu gilda hvað varðar veru fyrrverandi maka á vinalista. „Ef viðkomandi er enn í sárum, það hafa verið svik eða deilur og reiði er til staðar getur það verið neikvætt. Þá er fólk farið að fylgjast hvað með öðru á neikvæðan hátt.“ Ef aðilar eru hins vegar í góðu samandi og vel fer á milli telur hún Facebook ekki vera verri samskiptamáta en hvern annan.

Færst úr fjósinu yfir á Facebook

„Áður fyrr hittist fólk úti undir fjósvegg eða í laut í náttúrunni, í nútímanum er Facebook bara enn einn vettvangurinn,“ segir Sveindís Jóhannsdóttir, félagsráðgjafi hjá Félagsráðgjafanum ehf., en hún sérhæfir sig í para- og hjónabandsráðgjöf.

Hún segir Facebook í sjálfu sér ekki vera orsakavald framhjáhalds, frekar eigi að tala um það sem nýtt form. Ákveðin atriði geta þó aukið líkur á ótryggð, og nefnir hún sem dæmi að oft virðist mönnum auðveldara að segja eða gera eitthvað í gegnum rafrænan miðil, heldur það er augliti til auglits.

Ekki hafa eitthvað að fela

„Góð leiðbeiningarregla til para og hjóna er að hafa ekki eitthvað að fela. Það þarf að vanda sig í þessum samskiptum líkt og í öðrum. Aðgát skal höfð í nærveru sálar, það á alltaf við, hvort sem er í raunverulegum eða rafrænum samskipum.“

Aðstæður sem reglulega koma upp í parameðferð segir hún að annar aðili gleymi að skrá sig út af Facebook þannig hinn aðilinn fari að skoða hvað þar sé að finna. Algengt sé þá að aðilinn sé að ræða persónuleg málefni hjónabandsins við utanaðkomandi. „Ef við hugsum um sambandið sem hús, að þá áttu ekki að bjóða öðrum þangað inn. Oft er staðan þannig að menn eru að ræða tilfinningar við utanaðkomandi, sem í raun ætti að ræða um við makann.“

Hún segir vandamál sem viðkomi Facebook vera algengari meðal yngri kynslóðarinnar. „Segja má að því yngra sem fólk er, því líklegra er að árekstrar séu þar í kring, en þetta er þó ekki algilt.“

Kveikir auðveldlega afbrýðisemi

Helga Fríður Garðarsdóttir skrifaði meistararitgerð sína í félagsráðgjöf um áhrif Facebook á parasambönd, en hún segir samskiptasíðuna vera stóran áhrifaþátt í samböndum. „Í mörgum tilvikum kemur síðan á einhvern hátt við sögu. Ef vandamál eru komin upp á annað borð virðast allir verða viðkvæmari fyrir áhrifum Facebook.“

Hún segir síðuna vera auðveldan vettvang til þess að kveikja afbrýðisemi og þá sérstaklega þegar fólk er með fyrrverandi maka á vinalistanum. „Það er orðið svo auðvelt að koma sér í samskipti við fólk, síðan opnar aðgang að gömlum vinum og skotum og þó svo að upphafleg ætlun hafi ekki verið framhjáhald er leiðin þangað orðin greiðari.“

Erfiðara að jafna sig eftir sambandsslit

Gott er fyrir pör að ræða sín á milli hvar línan liggi. „Gott er ef pör skiptast á lykilorðum eða fara einn hring á síðu hvort annars.“ Þá segir hún tilvist fyrrverandi maka á Facebook-síðu geta skapað vandkvæði. Auk freistnivandans sýni rannsóknir að fólk sem hafi fyrrverandi maka á Facebook eigi erfiðara með að jafna sig tilfinningalega á sambandi. „Fólk freistast gjarnan til að njósna um fyrrverandi. Fylgist með því sem gerist á síðunni þeirra og flettir í gegnum myndir.“

Þá segir hún að pör þurfi einnig að vara sig á tíma sem eytt er á síðunni. Viðvera við tölvuna getur verið ógnvaldur og líkja má tölvunni við eins konar þriðja aðila í sambandinu. „Minni tími fer í að rækta sambandið og sinna heimilisstöfum ef meiri tíma er eytt á Facebook.“

Frétt mbl.is: IPadinn gagnlegur í guðsþjónustu

Þó netspjall byrji sakleysislega getur það auðveldlega þróast yfir á …
Þó netspjall byrji sakleysislega getur það auðveldlega þróast yfir á grátt svæði segja hjónabandsráðgjafar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert