„Hann lenti í óhappi við æfingar en hann var að undirbúa sig fyrir mótið [liðakeppni í Hálfum járnkarli] sem hann ætlaði að keppa á í dag,“ segir Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri hjá lyfjafyrirtækinu Alvogen, í samtali við mbl.is en í gær lenti forstjóri Alvogen, Róbert Wessman, í óhappi.
Óhappið átti sér stað á Krísuvíkurvegi þegar Róbert var við æfingar á reiðhjóli sínu en samkvæmt heimildum mbl.is hjólaði Róbert utan í bifreið með þeim afleiðingum að hann slasaðist. Frekari upplýsingar um meiðsl liggja ekki fyrir en Róbert var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.
Halldór segir Róbert vera við ágæta heilsu og á von á því að hann útskrifist af sjúkrahúsi næstkomandi þriðjudag. „Líðan hans er eftir atvikum góð og hann er á leiðinni heim eftir helgi.“