Hitabylgja er í Bretlandi og mikil veðursæld víðs vegar um Evrópu. Sömu sögu er ekki að segja um Ísland en það má búast við áframhaldandi vætu í vikunni og í þeirri næstu.
Það er þó ánægjuefni að það fer hlýnandi fyrir norðan og austan eftir miðvikudag. „Reikna má með áframhaldandi suðlægum áttum og það verður vætusamt sunnan og vestan til á landinu. Það verður ekki samfelld úrkoma á höfuðborgarsvæðinu en það verður bleyta flesta daga vikunnar,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Aðspurður hvort Íslendingar megi búast við að eiga úrkomumet Evrópulanda í ár segir hann svo ekki vera. Óli segir enn fremur að veðurfarið í sumar sé ekki óvenjulegt. „Ef við tökum þrjátíu ára meðaltal er þetta sumar í meðallagi. Sumar sem þetta hefur komið áður og mun koma aftur.“
Sjá nánar á veðurvef mbl.is