Búnir með makrílkvótann fyrir árið

Ásbjörn RE. Mynd fengin af vef HB Granda.
Ásbjörn RE. Mynd fengin af vef HB Granda.

Tveir af þremur ísfrystitogurum HB Granda hafa lokið við að veiða markílkvóta ársins. Þriðji togari fyrirtækisins mun klára sinn kvóta í næstu tveimur veiðiferðum sínum. Þetta kemur fram í frétt á vef HB Granda.

Otto N. Þorláksson RE fór fyrstur til veiða og var með um 130 tonn af makríl og síld í tveimur veiðiferðum. Ásbjörn RE kom til hafnar á Akranesi í morgun úr seinni veiðiferð sinni og var með svipaðan afla. Sturlaugur H. Böðvarsson AK fer til veiðanna í dag og verður makrílkvótinn tekinn í næstu tveimur veiðiferðum.

Haft er eftir Friðleifi Einarssyni, skipstjóra á Ásbirni, í frétt HB Granda að veiðarnar hafi gengið þokkalega að þessu sinni. Í tveimur fyrstu holunum hafi fengist hreinn makríll en síðan borið töluvert á íslenskri sumargotssíld sem aukaafla.

,,Við fórum lengst út um 120 mílur vestur af Akranesi. Lóðningar voru ágætar en það er erfitt að hitta á makrílinn án þess að fá líka síld sem meðafla. Ætli hlutfallið af henni hafi ekki verið um 25-30% af heildaraflanum,“ segir Friðleifur.

Samkvæmt upplýsingum Þrastar Reynissonar, vinnslustjóra HB Granda á Akranesi, hefur vinnsla á makríl frá ísfiskskipunum gengið ágætlega í sumar en hann segir helsta vandann fólginn í því að flokka síldina frá makrílnum.

,,Við erum búnir að taka á móti um 260 tonnum af makríl og síld í sumar. Hvort tveggja makríllinn og síldin eru heilfryst hjá okkur og vinnslu- og frystigetan er um 40 til 45 tonn á 10-12 tímum,“ segir Þröstur Reynisson í frétt HB Granda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert