Ræðir makríldeiluna við Barroso

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, fundar með forseta framkvæmdastjórnar ESB á …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, fundar með forseta framkvæmdastjórnar ESB á morgun. Styrmir Kári

Sjávarútvegsstjóri ESB segir að frekari fréttir verði af refsiaðgerðum vegna makríldeilunnar fyrir lok þessa mánaðar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, mun ræða deiluna við José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, á fundi þeirra í Brussel í fyrramálið.

Sjávarútvegsráðherrar ESB ræddu meðal annars um makríldeiluna í dag en Bretar og Írar höfðu fyrir fund þeirra hvatt til þess að gripið yrði til refsiaðgerða gegn Íslendingum og Færeyingum. Að fundinum loknum sagði Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, að frekari frétta væri að vænta af viðbrögðum sambandsins við veiðum þjóðanna tveggja fyrir lok þessa mánaðar.

„Við getum ekki beðið til næsta árs, við verðum að grípa til aðgerða núna. Hvað varðar til hvaða aðgerðum við grípum nákvæmlega þá munu frekari upplýsingar verða gefnar út fyrir lok þessa mánaðar,“ sagði Damanaki á blaðamannafundi í kvöld.

Ræðir við Barroso og van Rompuy

Forsætisráðherra er nú staddur í Brussel og mun funda með leiðtogum Evrópusambandsins á morgun að sögn aðstoðarmanns hans. Auk þess mun hann funda með Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins.

„Sigmundur Davíð á fund með Herman van Rompuy [forseta leiðtogaráðs ESB] í fyrramálið og ég geri ráð fyrir að þetta verði meðal annars rætt. Við munum gera Barroso grein fyrir afstöðu Íslendinga, sérstaklega þeirri afstöðu okkar að við teljum þessar refsiaðgerðir allt of víðtækar og að þær standist ekki EES-samninginn. Þær séu ólögmætur og við munum ekki sitja þegjandi undir því. Ég geri ráð fyrir að þetta komi fram á morgun,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðamaður forsætisráðherra.

Fyrst og fremst hótanir

Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir að lengi hafi verið talað um refsiaðgerðir gegn Íslendingum svo ómögulegt sé að vita hvenær menn ætli að standa við stóru orðin.

„Við vitum að hinn formlegi undirbúningur að refsiaðgerðunum hefur átt sér stað að einhverju leyti innan ESB. Ég hef viljað túlka það þannig að þarna sé fyrst og fremst um að ræða hótanir. Ég hef hins vegar ekki trú á því að ESB grípi til einhverra aðgerða öðruvísi en að frekari viðræður eigi sér stað áður. Þar að auki hef ég miklar efasemdir um að refsiaðgerðir af því tagi sem menn hafa rætt um innan sambandsins fáist einfaldlega staðist. Ég held að það séu ekki lagaforsendur fyrir þeim,“ segir Birgir.

Vill að ESB „sýni tennurnar“

Frétt Reuters af málinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka