Hreppsnefnd Húnavatnshrepps hefur áhyggjur af lágri vatnsstöðu í Blöndulóni, að því er fram kemur í fundargerð hreppsnefndar frá 3. júlí. Fjallað er um málið á Húnahorninu.
Í fundargerðinni segir að mikil hætta sé á sandfoki úr lónstæðinu við þessi skilyrði og aukin slysahætta fyrir búfé. Nauðsynlegt sé að vel verði fylgst með framvindu mála og gripið til aðgerða ef þurfa þykir.
Í áfangaskýrslu til Landsvirkjunar 1998-2002 sem unnin er af Borgþóri Magnússyni kemur fram að vatnsborð Blöndulóns sveiflast að meðaltali um 9 metra yfir árið. Það er að jafnaði lægst í apríl en hæst í sumarlok. Þar segir að eftir stækkun lónsins árið 1996 hafi fylling þess verið miklu seinna en áður var og í lökum vatnsárum hafi það ekki náð yfirfalli. Vatnsborð lónsins hafi mikil áhrif á grunnvatnsstöðu í þurrlendi upp af því. Sandurinn losni úr læðingi við öldurof í bökkum og grynningum í lónstæðinu og hafi fokið upp í mjög hvössum þurrviðrum af suðri þegar lágt hefur verið í lóninu í júlí og ágúst, segir í frétt Húnahornsins.