1955 var blautara

Það hefur rignt mikið fyrir sunnan þetta sumarið
Það hefur rignt mikið fyrir sunnan þetta sumarið mbl.is/Ómar Óskarsson

Í sumar hafa margir kvartað sáran yfir veðurfarinu og vætutíðinni og sagt hana vera þá allra verstu í manna minnum. Þessi staðhæfing er þó gjarnan leiðrétt af þeim sem aldur hafa til að muna eftir sumrinu 1955.

„Það var stöðug og veruleg rigning, hún var alveg stanslaus. Í ár hafa nú allgóðir dagar komið inn á milli,“ segir Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, og staðfestir að verra hafi það verið árið 1955. Hann skrifaði um vætutíð sumarsins í tímaritið Veðrið á sama ári, þar sem hann sagði frá stanslausri rigningu í rúmlega áttatíu daga og áttatíu nætur og líkti því við tvöfalt syndaflóð.

Þá segir hann að Íslendingar geti huggað sig við að betri tími sé að líkum rétt handan við hornið. „Nú getur verið að hæð færist yfir okkur sem gefur þurrara og hlýrra veður. Hlýjasti tíminn er að jafnaði frá 10. júlí til 10. ágúst. Það tímabil er rétt að byrja og ástandið getur því breyst.“ Hann segir að Íslendingar séu orðnir góðu vanir því árin frá aldarmótum hafi verið mun hlýrri en nokkurt annað tímabil síðan mælingar hófust.

Sumarið er það sjötta sólarminnsta

Sumarið í Reykjavík hefur verið það sjötta sólarminnsta frá árinu 1949, en sólskinstundirnar hafa verið 189 á tímabilinu 1. júní til 15. júlí. Úrkoman hefur verið 115,4 mm. Til samanburðar var úrkoman 200 mm á suðvesturhorni landsins í júlímánuði 1955. „Tvö hundruð millímetra úrkoma samsvarar því vatnsmagni, sem felst í mannhæðar djúpu, jafnföllnu nýsnævi, og getur hver ímyndað sér vatnsganginn, ef slík fönn væri skyndilega brædd, jafnvel þótt jörðin væri þurr og þíð undir,“ segir Páll í grein sinni til þess að setja úrkomumagnið í samhengi. Þá segir hann einnig að úrkoman hafi hvað mest verið í Vík, en þar var hún 357 mm.

Íbúar suðvesturhornsins geta því huggað sig við að verra var veðrið árið 1955.

Hér má sjá grein Páls Bergþórssonar.

Rigningardagur í borginni
Rigningardagur í borginni mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert