Stærsta hótel landsins rís við Höfðatorg

Alls verða 342 herbergi á hótelinu
Alls verða 342 herbergi á hótelinu mbl.is/Ómar Óskarsson

Gengið hefur verið frá fjármögnun á byggingu stærsta hótels landsins en það mun rísa á Höfðatorgi við Borgartún. Um er að ræða átta milljarða króna fjárfestingu en Íslandshótel munu annast rekstur hótelsins. Íslandsbanki mun fjármagna bygginguna og Eykt framkvæmdirnar.

Að sögn Péturs Guðmundssonar, forstjóra Eyktar, var fjármögnunarsamningurinn undirritaður í morgun og er jarðvegsvinna þegar hafin. Um er að ræða gríðarlega stórt verkefni en fyrirhugað er að hótelið verði rúmir 17 þúsund fermetrar að stærð, á 16 hæðum með 342 herbergjum.

10 þúsund fermetra bílageymsla bætist við

Að auki verður byggt við bílageymslu Höfðatorgs, alls um 10 þúsund fermetra þar sem 270-280 bílastæði munu bætast við þau stæði sem þegar eru á svæðinu.

Bygging hótelsins hefur verið í burðarliðnum um nokkra hríð en árið 2010 voru fyrirhugaðar framkvæmdir settar í salt.

Samkvæmt skipulagi munu sex byggingar rísa á Höfðatorgsreitnum. Þegar er búið að byggja tvær þeirra. Önnur hýsir starfsemi Reykjavíkurborgar og nokkurra fyrirtækja en í hinni er skrifstofu- og fyrirtækjarekstur.

Stefnt að sölu Höfðatorgs

Líkt og fram kom á mbl.is í síðasta mánuði er stefnt að sölu á félaginu HTO ehf. sem á og rekur eignirnar í Höfðatorgi við Borgartún 12-14 og Katrínartún 2 í Reykjavík. Er það fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka sem annast söluna. Tilboðsfrestur rann út hinn 3. júlí sl. og samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka barst nokkur fjöldi óskuldbindandi tilboða í félagið. Í kjölfarið var nokkrum tilboðsgjöfum hleypt áfram í næstu umferð en ekki er von á frekari upplýsingum af sölunni fyrr en í ágúst.

HTO er í eigu Íslandsbanka og Péturs Guðmundssonar, forstjóra Eyktar, og tengdra aðila. Íslandsbanki á 72,5% hlutfjár en Pétur 27,5%. Allt  hlutafé HTO er til sölu en ekki hafa verið gefnar upp neinar verðhugmyndir á félaginu. Bókfært virði allra eigna HTO var samkvæmt ársuppgjöri Íslandsbanka fyrir síðasta ár 14,967 milljarðar króna.

Heildarstærð eigna félagsins er um 57 þúsund fermetrar að meðtöldum bílakjallara. Nýting húsanna er góð og leigutakar eru í fjölbreyttum rekstri, samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka en nánast allt húsnæði félagsins er í útleigu.

Jarðvegsframkvæmdir eru hafnar á Höfðatorgi vegna byggingar hótelsins
Jarðvegsframkvæmdir eru hafnar á Höfðatorgi vegna byggingar hótelsins mbl.is/Golli
Að auki verður byggt við bílageymslu Höfðatorgs
Að auki verður byggt við bílageymslu Höfðatorgs mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka