„Stúdentaráð hefur nú alveg gefið í skyn að það ætli sér að fylgja eftir máli sínu en maður átti nú kannski frekar von á því að ráðið myndi fara með þetta fyrir umboðsmann Alþingis,“ segir Guðrún Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
Á blaðamannafundi sem haldinn var fyrr í dag kom fram að Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur stefnt stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) og íslenska ríkinu vegna breytinga á útlánareglum sjóðsins. Telur Stúdentaráð að stjórn LÍN hafi brotið gegn lögum við töku ákvörðunarinnar um að auka lágmarkskröfur um námsframvindu úr 18 einingum í 22 á önn. En breytingarnar voru boðaðar með mjög skömmum fyrirvara.
„Þeirra helsti málflutningur hefur verið sá að stjórnsýsluframkvæmdin hafi ekki verið nægjanlega góð, þ.e.a.s. að menn hafi fengið of skamman fyrirvara,“ segir Guðrún. Bendir hún á að í slíkum tilfellum sé mun algengara að leitað sé til umboðsmanns Alþingis í stað dómstóla.
Aðspurð segist hún einungis hafa séð óundirritaða stefnu og telur hún því réttast að tjá sig ekki frekar um málið að svo stöddu. „Það var haft samband við lögfræðing sjóðsins og hann fékk umboð til þess að taka á móti stefnunni fyrir hönd sjóðsins en ég hef ekki séð annað plagg.“
Þá tók Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, í svipaðan streng í samtali við mbl.is en hann sagði m.a. þá ákvörðun að fara með málið til dómstóla vera býsna mikið viðbragð af hálfu stúdenta.