„Það eru 50 langreyðar í landi og tvær á leiðinni. Veiðin hefur gengið bara mjög vel,“ segir Gunnlaugur F. Gunnlaugsson, stöðvarstjóri í Hvalstöðinni í Hvalfirði. Annar báturinn er á útleið að hans sögn. Sá stoppaði stutt við bryggju einungis til að taka olíu.
„Hann er á leið út á miðin aftur og hinn kemur í land í fyrramálið,“ segir Gunnlaugur en sá bátur hefur tvær langreyðar meðferðis. Gunnlaugur segir að veðrið hafi þó gert hvalveiðimönnum erfitt fyrir.
„Það er búið að vera erfitt vegna veðurs. Skyggni hefur verið lélegt, en þetta hefur þó gengið vel miðað við veðráttu,“ segir Gunnlaugur.
Í hvalstöðinni er unnið nótt og dag en alls vinna þar um 90 manns. Þá vinna einnig fleiri á öðrum stöðum á landinu. „Vinnan hefur gengið mjög vel í hvalstöðinni,“ segir Gunnlaugur en stærstu hvalirnir sem veiðst hafa í sumar eru um 70 fet.