Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur sent erlendum fjölmiðlum yfirlýsingu í framhaldi af fréttamannafundi Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, sem haldinn var í Brussel í gærkvöldi.
Á fundinum kom m m.a. fram að undirbúningur væri hafinn að mögulegum viðskiptaaðgerðum gegn Íslandi vegna stöðunnar í makrílviðræðum.
Í yfirlýsingu ráðherrans segir hann Íslendinga kalla eftir sanngjarnri og skynsamlegri lausn á makríldeilunni. „Hótanir Evrópusambandsins um refsiaðgerðir eru öfugverkandi og óhóflegar, sér í lagi í ljósi ofveiða Evrópusambandsins og Noregs á makríl. Tilraunir til þess að kúga Íslendinga með því að stinga upp á ólögmætum refsiaðgerðum mun ekki útkljá þetta brýna og viðkvæma mál. Forsætisráðherra [Sigmundur Davíð Gunnlaugsson] hefur í dag enn á ný undirstrikað að áformaðar refsiaðgerðir myndu stangast á við reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).“
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði ennfremur í yfirlýsingu sinni að makrílstofninn væri sameiginleg auðlind strandríkja og stjórnun stofnsins ætti að sæta skynsemi.
Þá benti ráðherrann einnig á að Íslendingar hefðu ákveðið að minnka makrílkvóta sinn fyrir árið 2013 um 15% frá árinu á undan. Að lokum segist ráðherrann vona að lausn deilunnar finnist í vísindalegum rökum en ekki kúgun stærri þjóða á þeim minni.