Ráðherra gefur lítið fyrir orð Hallgríms

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Samfylkingarmaðurinn Hallgrímur Helgason (rithöfundur), nýtti áróðursmínútur sínar hjá Ríkisútvarpinu vel á mánudag,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra á vef sínum.

„Hallgrímur fór mikinn í pistli sínum um Framsóknarflokkinn og framsóknarmenn og jafnvel ímyndaða framsóknarmenn. Ekki ætla ég að hafa mörg orð um hugsanir Hallgríms enda gef ég lítið fyrir þær líkt og orð hans og skrif.

Ég hef í gegnum tíðina talið mig til þess hóps sem varið hefur Ríkisútvarpið þótt ég hafi líka leyft mér að gagnrýna það þegar ég tel það við hæfi.
Í dag velti ég fyrir mér tilgangi Ríkisútvarpsins.

Samfylkingarmínúturnar sem Hallgrímur Helgason nýtti svo vel vekja mann til umhugsunar. Kannski er það stefna Ríkisútvarpsins að gefa öllum stjórnmálaflokkum rými í sinni dagskrá til að níða skóinn af pólitískum andstæðingum? Sé það svo þá hljóta stjórnendur Ríkisútvarpsins að bjóða einhverjum framsóknarmanni en rithöfundinum virðist sérstaklega í nöp við okkur framsóknarmenn, að mæta í Efstaleitið og útvarpa „framsóknarsannleik“ um Samfylkinguna og Icesave, Spron, fjármál Samfó, tengsl Samfylkingarinnar við Baug, stjórnarmenn hingað og þangað á þeirra vegum, Árni og Íbúðalánasjóður, tengsl við Hallgrím og tengsl við útrásarvíkinga o.s.frv.

Skora ég á útvarpsstjóra að bjóða öðrum flokkum eins margar mínútur og Samfylkingin fékk.

Ekki kemur á óvart ef stjórnendur stofnunarinnar (Ríkisútvarpsins) telji ástæðu til að bregðast við þessari gagnrýni minni með grein á Eyjunni, yfirlýsingu eða gamalli frétt um Framsóknarflokkinn,“ skrifar Gunnar Bragi á vef sinn.

Hallgrímur Helgason.
Hallgrímur Helgason. mbl.is/Forlagið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert