Undanfarnar vikur hefur hópur sjálfboðaliða á vegum samtakanna SEEDS verið að störfum í Selárdal við endurgerð og viðgerðir á styttum og byggingum listamannsins Samúels Jónssonar.
Unnið hefur verið við viðgerðirnar nokkur sumur í röð, en vonast er til þess að hægt verði að koma þar upp aðstöðu fyrir ferðafólk og gistiaðstöðu fyrir lista- og fræðimenn. Brotið var upp úr styttunum og húsin voru illa farin, þau höfðu verið óvarin fyrir veðri og vindum í fjölda ára, að því er fram kemur í umfjöllun um uppbygginguna í Selárdal í Morgunblaðinu í dag.
„Þetta eru einstakar byggingar og eins og úr öðrum heimi,“ segir Ólafur J. Engilbertsson sem er í stjórn félags um endurreisn listasafns Samúels, en félagið var stofnað árið 1998 og starfar að endurreisn og viðhaldi á verkum Samúels.