Horfur um afkomu ríkissjóðs á árinu 2013 benda ótvírætt til að hún verði umtalsvert lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir og því ljóst að þær þurfa gagngera endurskoðun.“ Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í inngangi að ríkisreikningi sem birtur var í gær.
Bjarni segir að uppsafnaður halli ríkissjóðs á árabilinu 2008-2012 nemi alls 604 milljörðum króna. Í árslok 2007 voru heildarskuldir ríkissjóðs að meðtöldum lífeyrisskuldbindingum 542 milljarðar króna eða 42,3% af landsframleiðslu samanborið við 1.890 milljarða króna eða 110,6% í árslok 2012.
Bjarni bendir einnig á að vaxtagjöld ríkissjóðs námu 22 milljörðum króna árið 2007 en voru 76 milljarðar króna á árinu 2012.
Helstu niðurstöður ríkisreikningsins eru að tekjujöfnuðurinn varð neikvæður um 36 milljarða króna en endurskoðaðar áætlanir gerðu ráð fyrir að hann yrði neikvæður um 26 milljarða. Raunútkoman varð því 10 milljörðum króna lakari en fyrirséð var við afgreiðslu fjáraukalaga í desember sl. Tekjuhallinn svarar til 7% af heildartekjum ríkissjóðs á árinu eða 2% af landsframleiðslunni.
Frumjöfnuður ársins 2012 var jákvæður um 18 milljarða króna en gert var ráð fyrir að hann yrði jákvæður um 30 milljarða króna. Mest munar um niðurfærslu á bókfærðum eignarhluta ríkissjóðs í Íbúðalánasjóði um 7 milljarða króna. Tekjur voru 3,4 milljörðum króna lægri en gert var ráð fyrir og gjöldin 6,6 milljörðum króna hærri.
Þrátt fyrir lakari tekjuafkomu en að var stefnt þá var hún mun hagstæðari en árið 2011 þegar tekjuhallinn var 89 milljarðar króna. Hins vegar var ríkissjóður með lánsfjárþörf sem nam 3,6% af landsframleiðslu á árinu 2012 samanborið við 3,5% lánsfjárafgang á árinu 2011.