Tveir Google bílar komnir til landsins

Tveir Google bílar munu keyra um landið næstu tvo mánuði. …
Tveir Google bílar munu keyra um landið næstu tvo mánuði. Því er um að gera að taka til í kringum húsið svo það líti vel út á kortum fyrirtækisins. Mynd/Sigurður Þór Helgason

Næstu 2 mánuði munu tveir Google-bílar keyra um landið og mynda það sem fyrir þeim verður. Eru þeir með myndavélar á þakinu sem taka myndir í allar áttir, en þær verða svo notaðar í kortaþjónustu fyrirtækisins, Google Earth og Google Steet View.  

Sigurður Þór Helgason, eigandi iStore í Kringlunni, var meðal farþega í Norrænu í nótt og tók hann myndir af því þegar bílarnir komu til landsins í morgun, en þegar mbl.is ræddi við Sigurð voru bílarnir í skoðun hjá tollinum og enn óvíst hvort starfsmenn tollsins myndu setja eitthvað út á dýran tækjabúnað sem fylgir bílunum.

Sigurður náði tali af ökumönnum bílanna á leiðinni í Norrænu og segir hann að þeir hafi sagt sér að Google væri mjög spennt fyrir þessu verkefni. Þeir litu einnig á það sem einskonar verðlaun að hafa fengið að fara hingað til lands, bæði vegna náttúrunnar og að ná að mynda heilt land.

Verður komið í kerfi Google í haust

Á næstu tveimur mánuðum munu bílarnir keyra um alla aðalvegi landsins og götur í bæjum og borg. Starfsmennirnir sögðu Sigurði að líklega yrði búið að vinna úr gögnunum í haust og þá yrðu þær aðgengilegar í kerfum Google.

„Þetta skiptir okkur máli, það er gott að fá svona stuðning við vegakerfið sem við höfum og gaman að Google sýni því áhuga að ná yfir allt landið,“ segir Sigurður og bætir við að gaman sé hversu mikinn áhuga Google virðist sýna náttúrunni hér á landi.

Fyrr í ár stóð fyrirtækið ja.is fyrir því að ljósmynda nokkra ferðamannastaði og þekktar götur í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert