Já náði að vekja risann Google

Mynd sem Já 360° bílinn tók á leið sinni til …
Mynd sem Já 360° bílinn tók á leið sinni til Grundarfjarðar. Mynd/Já.is

Já sem rekur meðal annars upplýsingavefinn Já.is, hefur nú þegar tekið yfir milljón 360° myndir á Íslandi. Búið er að taka myndir af nánast öllum götum á höfuðborgarsvæðinu og er bíllinn byrjaður að fara út á land. Hægt er að fylgjast með ferðum bílsins í rauntíma.

 Í fréttatilkynningu frá Já segir að „Já 360° bíllinn“ mun taka myndir af öllum aðalvegum landsins ásamt götum á höfuðborgarsvæðinu og bæjum úti á landi og eru áætluð lok á myndatökum 15. ágúst. Í framhaldi af því verður byrjað að samþætta myndirnar við kortavef Já og munu fyrstu myndir birtast með haustinu.

Helstu kostir 360° mynda eru að hægt er að skoða áhugaverða staði líkt og maður sé staddur á staðnum, segir í tilkynningu Já. Með nýjum tækjum eins og snjallsímum og spjaldtölvum verður þessi upplifun enn raunverulegri. Margir nota slíkar myndir til að skoða sig um á stöðum áður en þeir heimsækja þá.

Já náði að vekja risann Google 

Í dag sagði mbl.is frá því að Google er að hefja sambærilegar myndatökur á Íslandi. Guðmundur Halldór Björnsson, vöru og viðskiptaþróunarstjóri hjá Já, segist ekki óttast þá samkeppni.

 „Við gerðum ráð fyrir því að Google myndi bregðast við eftir að við hófum að taka Já 360° myndir hér á landi,“ er haft eftir Guðmundi í tilkynningu. „Það er mjög gott fyrir Ísland í alþjóðlegu samhengi að stóru fyrirtækin úti í heimi sýni landinu áhuga en stundum þarf aðeins að ýta við þeim svo að það sé gert. Við erum stolt af því að litla fyrirtækið Já náði að vekja risann og beina kastljósinu til Íslands. Núna bíðum við bara eftir því að Google setji Ísland formlega á listann yfir þau lönd þar sem þeir eru að taka Street view myndir. Ísland verður þá 54. landið á þeim lista. Það er mjög áhugavert og vel af sér vikið í ljósi þess að það eru tæplega 200 lönd í heiminum og hér á Íslandi búa aðeins um 320.000 manns.“

 Hann segir að Já muni bjóða sambærilega þjónustu og Google Street View.

Bíl Já hefur verið vel tekið og nokkuð hefur borið …
Bíl Já hefur verið vel tekið og nokkuð hefur borið á því að fólk hafi brugðið á leik þegar hann hefur verið á ferð eins og sést á þessari mynd en þar má sjá tilvísun í Valla úr bókunum „Hvar er Valli“.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert