Borgarfulltrúar misnotuðu veikindi Ólafs

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Ólafur F. Magnússon kynntu nýjan meirihluta …
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Ólafur F. Magnússon kynntu nýjan meirihluta í borgarstjórn á Kjarvalsstöðum í janúar 2008. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég er enn miður mín og skammast mín fyrir að hafa tekið þátt í að gera Ólaf F. Magnússon að borgarstjóra í Reykjavík,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í viðtali við Þóru Tómasdóttur nýjasta tölublaði Nýs lífs. Hún íhugar nú sjálf að bjóða sig fram sem næsta borgarstjóraefni sjálfstæðismanna.

Þorbjörg Helga segist í viðtalinu lengi hafa viljað tjá sig um atburðarásina í janúar 2008 þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn mynduðu nýjan meirihluta í borginni í kjölfar REI-málsins og Ólafur var gerður að borgarstjóra. Geðheilsa hans hafði þá komið til tals í fjölmiðlum þegar athygli vakti að hann var krafinn um læknisvottorð við endurkomu í stjórnmálin, eftir árs veikindaleyfi 2007.

Allir vissu að hann var veikur

Aðspurð segist Þorbjörg Helga ekki muna hver átti hugmyndina að því að Ólafur yrði borgarstjóri. Hún man hins vegar eftir að hafa orðið mjög hissa og verið efins um þessa ráðstöfun. „Ekkert okkar er stolt af þessu og okkur er enn vantreyst eftir að hafa gert Ólaf F. Magnússon að borgarstjóra,“ segir Þorbjörg.

Daginn sem boðað var til blaðamannafundar til að kynna nýja borgarstjórn leið henni ömurlega, að sögn. 

„Þetta var alls ekki góður dagur. Vilhjálmur og Ólafur unnu ágætlega saman að einhverju leyti en þetta var alls ekki gott. Þetta var aldrei gott. Ég man mjög skýrt eftir því þegar Ólafur hafði verið borgarstjóri í nokkra mánuði og einn úr okkar hópi með þekkingu á geðheilbrigðismálum gekk inn á fund til okkar borgarfulltrúanna og sagði okkur fullkomlega meðvirk.“

Hún segir alla borgarfulltrúa hafa misnotað aðstæður Ólafs, en sjálfstæðismenn hafi gengið lengst með því að bjóða honum borgarstjórastólinn. „Ólafur F. var veikur maður og það vissu það allir.“

Íhugar að taka slaginn sjálf

Í viðtalinu segir Þorbjörg Helga jafnframt að hún hafi verið óánægð með Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson sem borgarstjóra og að lítið traust hafi ríkt á milli þeirra. Hún telur að borgarstjóratíð Ólafs F. og Vilhjálms hafi grafið undan trausti á embættinu og skapað forsendur fyrir kjöri Jóns Gnarr þar sem fólk hafi talið „að það væri hægt að gera hvern sem er að borgarstjóra eftir það sem á undan var gengið“.

Hún gefur hins vegar ekki mikið fyrir vinnubrögð Jóns og íhugar nú sjálf að taka slaginn um borgarstjóraembættið. „Ef ég býð mig fram aftur, verður það í oddvitasæti. Það kemur ekkert annað til greina.“

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir er í viðtali við Þóru Tómasdóttur í …
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir er í viðtali við Þóru Tómasdóttur í nýjasta tölublaði Nýs lífs sem kom út í dag.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir segir að skelfingarsvipur hafi verið á henni …
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir segir að skelfingarsvipur hafi verið á henni þar sem hún stóð að baki Ólafs F. þegar nýr meirihluti var kynntur. mbl.is/Árni Sæberg
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir íhugar nú að bjóða sig fram sem …
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir íhugar nú að bjóða sig fram sem borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins í næstu sveitastjórnarkosningum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Ólafur F. Magnússon lét af störfum sem borgarstjóri í ágúst …
Ólafur F. Magnússon lét af störfum sem borgarstjóri í ágúst 2008. mbl.is/Ómar Óskarsson
Nýr borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Frjálslynda flokks kynntur á Kjarvalsstöðum í …
Nýr borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Frjálslynda flokks kynntur á Kjarvalsstöðum í janúar 2008. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert