„Ég er enginn kattahatari“

Íbúi í Kópavogi segist ekki geta skilið eftir opinn glugga …
Íbúi í Kópavogi segist ekki geta skilið eftir opinn glugga vegna ágangs katta Morgunblaðið/Eyþór

„Ég er enginn kattahatari, en er líkt og margir aðrir í bænum orðinn langþreyttur af stöðugum umgangi katta í garðinum. Maður er stöðugt að þrífa upp kattaskít og getur ekki skilið eftir opinn glugga,“ segir óánægður Kópavogsbúi sem lagði fram kvörtun vegna ónæðis af völdum katta til bæjarráðs og fór fram á bætur. Niðurstaða bæjarráðs var að ekki væri hægt að verða við erindinu.

Hann segir meginatriðið vera að Kópavogsbær sé með samþykkt um kattahald sem ekki banni lausagöngu, en það verði til þess að íbúar í bænum þurfi að gera sínar eigin ráðstafanir. „Ég þurfti að kaupa kattafælu til þess að halda þeim frá. Kvörtunin var nú hálf táknræn, en hún var til þess að vekja athygli bæjarins á því að íbúar eru að verða fyrir fjárútlátum vegna lausagöngu katta.“ Þá segir hann að reikningurinn verði aftur sendur á bæjarfélagið ef þörf verði á frekari aðgerðum.

Köttur beit stélið af páfagauknum

Fyrir utan óþrifnaðinn segir hann kettina stefna öðrum gæludýrum í hættu. „Sonur minn er með páfagauk, en hann var stórslasaður af ketti sem kom inn um gluggann úr nærliggjandi húsi. Hann reif af honum stélið.“ Hann segir lausagönguna vera tímaskekkju og tóma vitleysu. „Það er alveg galið að menn geti fengið sér kött og hent honum svo út á götu þannig að nágrannar neyðist til þess að þrífa upp eftir þá.“

Hann telur kettina vera smám saman að þurrka út fuglalífið í Kópavogi og fagnar því að Guðríður Arnardóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar, sé að vinna í málinu, en hún lagði þann 20. júní síðastliðinn fram tillögu þess efnis að banna ætti lausagöngu katta á varptíma fugla. Tillagan var hins vegar ekki samþykkt. „Reglur um lausagöngu eru settar til verndar viðkvæmu fuglalífi, en það vantar öll úrræði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert